Mynd dagsinsPáll StefánssonVaddúddí, vaddúddí Jaðrakan segir víst vaddúddí, vaddúddí, en stofnstærðin á þessum votlendisfugli er um 70 þúsund varppör. Krían (seinni mynd) er þrisvar sinnum fjölmennari, en hér verpa um 200 þúsund pör. Jaðrakan fer ekki ekki langt til vetursetu, bara til Írlands og suður til Fetlafjarðar, sem heitir víst líka Biskajaflói eða Bizkaiako Golkoa á basknesku. Krían aftur á móti eyðir 5 mánuðum á ári í ferðalög, en það eru 35 þúsund kílómetrar frá vetrarstöðvunum við Suðurskautslandið til Sandgerðis þar sem þessi mynd var tekin í morgun.
Mynd dagsinsPáll StefánssonElla í Brákarsundi, Borgarnesi Trillan Ella, er vorboðinn í Borgarnesi. í aldarfjórðung hefur hún glatt gesti og gangandi þar sem hún lónir í Brákeyjarsundi vor og sumar. Ella var byggð í Stykkishólmi 1975, skírð eftir Snæfelskum kvenskörungi. Þaðan var hún keypt til Borgarnes af Stórútgerðarfélagi Mýrarmanna - aðallega til að veiða borgfisk undir Þormóðsskeri á sérstöku Bessaleyfi. Núverandi eigandi, Sigurður Halldórsson, ætlar sér stærri hluti með Ellu... að breyta henni í samfélagsstjörnu. Fljótlega mun Ella því fá sérstaka Facebook og Instagram síðu.
Mynd dagsinsPáll StefánssonHjólaþjófatíminn er núna Þjófnaður reiðhjólum er nú í fullum gangi, vertíðin er frá miðjum apríl og fram í miðjan september að sögn Gunnars Rúnars Sveinbjarnarsonar, upplýsingafulltrúa lögreglunnar. Hann sagði líka að fólk mætti vera duglegra að athuga hvort lögreglan hefði fundið hjólið. Hjól sem hafa verið í vörslu lögreglunar í yfir eitt ár fara á uppboð. Á uppboðinu í fyrrasumar voru rúmlega hundrað hjól, öll seldust nema tvö barnahjól. Lögreglunni barst 551 tilkynning um hjólastuld í fyrra.
Mynd dagsinsPáll StefánssonGóðleg gimbur í góða veðrinu Sauðfé á Íslandi hefur fækkað um meira en helming frá því flest var árið 1977. Þá voru 896 þúsund fjár á vetrarfóðrun en nú í vetur voru þau akkúrat 400 þúsund og hafa þau ekki verið færri síðan 1861. Af öllum þessum fjölda eru hrútarnir aðeins 11 þúsund - en það gera 37 rollur á hvern hrút. Fjöldi sauðfjár nú er litlu meiri en hann var árið 1760 en þá bjuggu hér 43 þúsund manns.
Mynd dagsinsPáll StefánssonUpp á punkt og prik Í dag eru upp á dag tíu ár síðan Svisslendingarnir Anthony og Claudia komu fyrst til Íslands og tjölduðu þessu þá nýja tjaldi á Tjaldsvæðinu í Laugardal. Síðastliðin tvö ár hafa þau búið og starfað á Dalvík, en voru í stuttu stoppi í höfuðborginni á leið suður og austur hringinn. Það var eitt annað tjald á tjaldsvæðinu og tveir litlir húsbílar. Lífið er semsagt að færast í eðlilegt horf... ferðafólk á tjaldsvæðinu og grímuskyldan aflögð frá og með deginum í dag.
Mynd dagsinsPáll StefánssonMars í maí Hönnunarmars er vorboði, og einn viðburður var í Vesturbæjarlauginni í dag. Aðalheiður, Ásgeir Helgi, Emilía og Halla dönsuðu samhæft í nýjum sundfötum frá BAHNS, undir stjórn Ingu Marenar. Það var eitthvað fallegt, jákvætt við það að sjá fulla heita potta af áhorfendum klappa þegar dansinum var lokið. Svolítið eins og við séum komin fyrir horn í þessum faraldri sem einhvernveginn ætlar aldrei að ljúka.
Mynd dagsinsPáll StefánssonGott í gogginn Fyrsti veitingastaðurinn í Reykjavík var opnaður árið 1791 af dönsku ekkjunni, Margrethe Adersdatter Ravn Angel. Þá voru íbúar Reykjavíkur aðeins 358. Fyrir heimsfaraldurinn voru rétt rúmlega 200 veitingastaðir í miðborginni - þeim hafði fjölgað um helming frá aldamótum. Hér í Ingólfsstrætinu bíður Ásgeir eftir að málningin þorni svo gestir og gangandi geti fengið sér eitthvað gott í gogginn, úti í vorsólinni.
Mynd dagsinsPáll StefánssonByssupúðurgerðarstaðurinn Þeystareykir fóru í eyði árið 1873, en fyrr á öldum var þaðan mikill útflutningur af brennisteini til byssupúðurgerðar gegnum Gása og Húsavík. Fyrst voru það Hansakaupmenn og Hollendingar sem keyptu brennisteininn en Danakonungur tekur sér einkarétt af þessum ábatasömu viðskiptum árið 1560. Landsvirkjun reysti 90 MW jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum árið 2017.
Mynd dagsinsPáll StefánssonNúll gráður á Grjótnesi Um miðja síðustu öld var búið á um 30 bæjum á Melrakkasléttu. Grjótnes (mynd) á Vestur-Sléttu, var mannmargt tvíbýli, og bjuggu þar milli 30 og 40 manns á sumrin þegar mest var. Nú er aðeins búið á tveimur bæjum á Melrakkasléttunni, en hlunnindi eru áfram nýtt á flestum þessara eyðijarða, eins og reki og æðardúnn. Lofthitinn á Melrakkasléttunni í morgun var 0°C.
Mynd dagsinsPáll StefánssonHarpan og Ómar Skipstjórinn Ómar Karlsson (mynd) á dragnótarbátnum Hörpu HU4, er að gera allt klárt fyrir sumarið og haustið. Hann veiðir eingöngu í Húnaflóanum, og þá aðallega þorsk og ýsu. Það eru bara tveir bátar eftir í útgerð frá Hvammstanga, Harpan og Steini HU45.
Þín áskrift hefur áhrif Almenningur hefur viðhaldið Stundinni og Kjarnanum með áskriftum og styrkjum síðan 2013. Með því að kaupa áskrift að Heimildinni styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku. Gerast áskrifandi Nei, takk Ertu nú þegar áskrifandi? Skráðu þig inn hér.