Ritstjórnarlegt sjálfstæði Stundarinnar

1. Stundin er að meirihluta í eigu starfsmanna, þar á meðal blaðamanna og/eða ritstjóra. Þeir eigendur útgáfufélagsins sem ekki eru þar til bærir starfsmenn þess hafa ekki vald yfir efnisvali eða efnistökum.

2. Samþykktir útgáfufélagsins kveða á um dreifða eignaraðild og þar með valddreifingu innan félagsins. Enginn einn eigandi ræður yfir meira en 15% atkvæða á hluthafafundum. Yfirtökuvarnir og valddreifingarákvæði í samþykktum verja félagið gegn mögulegri yfirtöku hagsmunaaðila sem geta vegið að sjálfstæði ritstjórnar gagnvart hagsmunaöflum og haft þannig áhrif á umfjallanir sér í hag.

3. Stjórn útgáfufélagsins skuldbindur sig til að tryggja sjálfstæði ritstjórnar og getur ekki beitt sér í þágu sérhagsmuna. Hagsmunir eigenda eru aldrei hafðir til hliðsjónar við vinnslu frétta. Í þeim tilfellum sem fjallað er um útgáfufélagið sjálft, miðilinn eða starfsmenn þess eru hagsmunatengsl tilgreind í umfjöllun.

4. Ritstjórar bera ábyrgð á ritstjórnarefni Stundarinnar og ritstjórn hans. Þeir ráða og reka blaðamenn. Hafi starfsmaður ritstjórnar brotið af sér í starfi, farið gegn siðareglum eða ritstjórnarstefnu, taka ritstjórar ákvörðun um hvort veita beri áminningu. Sé brotið þess alvarlegra getur það varðað uppsögn.

5. Starfsmenn ritstjórnar skulu upplýsa um hagsmuni sína sem geta haft áhrif á umfjöllunarefni. Ritstjórar birta hagsmunatengsl sín opinberlega á vef Stundarinnar samkvæmt forskrift úr samþykktum útgáfufélagsins.

6. Hlutverk ritstjórnar er að segja fréttir og veita almenningi upplýsingar, sem ætla má að séu mikilvægar almenningi, og á forsendum almennings. Ritstjórar eru ábyrgir fyrir ritstjórnarstefnu.

7. Hagsmunir auglýsenda eru aldrei hafðir til hliðsjónar við vinnslu ritstjórnarefnis. Skýr greinarmunur er gerður á auglýsingum eða mögulegum kynningum og ritstjórnarefni.

Samþykkt af stjórn Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. 24. júní 2015