Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir - Hagsmunaskráning

Samkvæmt stofnsamþykktum Heimildarinnar birta ritstjórar hagsmunatengsl sín með sambærilegum hætti og alþingismenn gera. Hagsmunaskráning Heimildarinnar er hins vegar ítarlegri en skráning hagsmuna þingmanna, þar sem bæði er tekið til lána og svo pólitískrar fortíðar. Heimildin er eini íslenski fjölmiðillinn sem birtir hagmsunatengsl með slíkum hætti.


Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Hagsmunaskráning

Launuð starfsemi

1) Launuð stjórnarseta í öðrum einkareknum eða opinberum félögum. Staða og félag skulu skráð.  
Svar: Engin stjórnarseta í félögum.

2) Launað starf eða verkefni (annað en á ritstjórn Heimildarinnar). Starfsheiti og nafn vinnuveitanda/verkkaupa skulu skráð.
Svar: Engin önnur launuð störf.

3) Starfsemi sem unnin er samhliða starfi ritstjóra og er tekjumyndandi fyrir hann eða félag sem hann á sjálfur eða er meðeigandi í. Skráð er tegund starfsemi.
Svar: Engin störf fyrir aðra aðila en Sameinaða útgáfufélagið ehf.

Fjárhagslegur stuðningur, gjafir, utanlandsferðir og eftirgjöf skulda

4) Fjárframlag eða annar fjárhagslegur stuðningur frá innlendum og erlendum lögaðilum og einstaklingum, þ.á.m. stuðningur í formi skrifstofuaðstöðu eða hliðstæðrar þjónustu, sem fellur utan þess stuðnings sem útgáfa félagsins lætur í té, og verðgildi stuðningsins nemur meira en 50 þús. krónum á ári. Enn fremur er skráður fjárhagslegur stuðningur í formi afsláttar af markaðsverði og annars konar ívilnunar að verðgildi meira en 50 þús. krónur sem ætla má að sé veittur vegna starfa við fjölmiðla. Skráð er hver veitir stuðninginn og hvers eðlis hann er.
Svar: Enginn slíkur stuðningur fyrir hendi. 

5) Gjöf frá innlendum og erlendum lögaðilum og einstaklingum þegar áætla verður verðmæti hennar yfir 50 þús. krónum og ætla má að gjöfin sé í tengslum við starf við blaðamennsku. Skrá skal nafn þess sem gefur, tilefni gjafar, hvers kyns hún er og hvenær hún er látin í té.
Svar: Engar slíkar gjafir þegnar.

6) Ferðir og heimsóknir innan lands og utan sem geta tengst starfi fyrir fjölmiðilinn og útgjöldin eru ekki að öllu leyti greidd af útgáfufélaginu eða ritstjóranum sjálfum. Skrá skal hver stóð undir útgjöldum ferðar, tímabil hennar ásamt nafni áfangastaða.
Svar: Boðsferð til Þýskalands á vegum NIVEA fyrir tímaritið Mannlíf árið 2006 og til Bretlands á kynningu hjá Burberry fyrir tímaritið Nýtt Líf árið 2008.  
Tók þátt í þriggja vikna námskeiði fyrir rannsóknarblaðamenn í boði bandaríska ríkisins, International Visitors Leadership Programme, árið 2012, þá blaðamaður DV. Farið var til Washington DC, New York, Reno og Boston. Fjölmiðlar og stofnanir voru heimsóttar og tekið þátt í ráðstefnu rannsóknarblaðamanna og ritstjóra, IRE. 

7) Eftirgjöf eftirstöðva skulda og ívilnandi breytingar á skilmálum samnings við lánardrottinn. Skrá skal lánardrottinn og eðli samningsins.
Svar: Fékk almenna skuldaleiðréttingu húsnæðislána.

8) Persónuleg lán eða lán til eigin félags, fyrir utan greiðslukorta- og yfirdráttarlán undir einni milljón kr.
Svar: Húsnæðislán hjá Íslandsbanka vegna eigin heimilis.

Eignir

8) Fasteign, sem er að einum þriðja eða meira í eigu ritstjóra eða félags sem hann á fjórðungshlut í eða meira, annað en húsnæði til eigin nota fyrir ritstjóra og fjölskyldu hans og lóðarréttindi undir slíkt húsnæði. Skráð er heiti landareignar og staðsetning fasteignar.
Svar: Engin.

9) Heiti félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri, sem ritstjóri á hlut í sem fer yfir einhver eftirtalinna viðmiða:
    a.    Verðmæti hlutar nemur að markaðsvirði meira en einni milljón króna miðað við 31. desember ár hvert.
    b.    Hlutur nemur 1% eða meira í félagi, sparisjóði eða sjálfseignarstofnun þar sem eignir í árslok eru 230 millj.kr. eða meira eða rekstrartekjur 460 millj. kr. eða meira.
    c.    Hlutur nemur 25% eða meira af hlutafé eða stofnfé félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar.

Svar: Á 7,6% hlut í Sameinaða útgáfufélaginu ehf. sem gefur út Heimildina. Engin önnur hlutabréf.

Samkomulag við fyrrverandi eða verðandi vinnuveitanda

10) Samkomulag við fyrrverandi vinnuveitanda sem er fjárhagslegs eðlis, þar á meðal samkomulag um orlof, launalaust leyfi, áframhaldandi launagreiðslur eða fríðindi, lífeyrisréttindi og ámóta meðan starfað er við fjölmiðilinn. Skrá skal gerð samkomulags og nafn vinnuveitanda.
Svar: Ekkert slíkt samkomulag.

11) Samkomulag um ráðningu við framtíðarvinnuveitanda, óháð því að ráðningin taki fyrst gildi eftir að ritstjóri hætti störfum. Skrá skal gerð samkomulags og nafn vinnuveitanda.
Svar: Ekkert slíkt samkomulag.

Trúnaðarstörf

12) Skrá skal upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög eða stjórnmálaflokka óháð því hvort þessi störf eru launuð. Skrá skal nafn félags, hagsmunasamtaka, stofnunar eða sveitarfélags og eðli trúnaðarstarfs.
Svar: Engin trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög, félög eða stjórnmálaflokka.

13) Upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir stjórnmálaflokka nú eða áður. Skrá skal nafn stjórnmálaflokks- og/eða félags og eðli trúnaðarstarfs.
Svar: Engin störf fyrir stjórnmálaflokka, nú eða áður.