María Ósk Sigurðardóttir - eða Mæja eins og hún var gjarnan kölluð af fjölskyldu og vinum - var 43 ára gömul þegar hún lést 2. júlí. Hún skilur eftir sig fjögur börn og tvö barnabörn. Gestný Rós Guðrúnardóttir, systir Mæju, lýsir henni í viðtali við Stundina sem fallegri, guðrækinni og listrænni manneskju sem hafði dálæti af textíl og myndlist.
Mæja sem var 11 árum eldri en Gestný var henni sem önnur móðir og sem barn vildi hún helst dvelja hjá henni öllum stundum. „Mæja var elst og ég fann mikið öryggi í henni þegar ég var lítil. Ég leitaði mikið í hana og vildi helst búa hjá henni. Það var oft þannig að ég var hjá henni marga daga í röð. Hún eldaði líka besta mat í heimi og það var hún sem kenndi mér að elda. Ég hef alltaf litið á hennar mat sem „mömmu-mat“. Hún var bara svo fær í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var svo hugmyndarík og listræn. Hún málaði myndir og hana langaði alltaf að verða textílkennari.“
„Manni líður eins og maður sé í einhverjum martraðardraumi og þegar maður vakni úr þessu þá hafi þetta ekki gerst, þá sé hún enn hérna“
Gestný lýsir tilfinningu sem margir kannast við sem misst hafa einhvern nákominn. „Við erum bara öll í molum yfir þessu. Það hellist svo óraunveruleg tilfinning yfir mann. Eins og þegar við vorum heima hjá henni og við vissum öll að hún væri dáin, samt hugsuðum við að Mæja hlyti nú að fara að koma heim og fá sér kaffi. Það er bara svo óraunverulegt að þetta sé satt. Manni líður eins og maður sé í einhverjum martraðardraumi og þegar maður vakni úr þessu þá hafi þetta ekki gerst, þá sé hún enn hérna. Það er tilfinningin okkar allra, eins og maður sé ekki alveg að átta sig á því að þetta sé búið að gerast og hún sé farin. Maður er bara mjög lengi að átta sig á því einhvern veginn. Ég finn svo mikla ást og hlýju til allra og hugsa bara til þess hvað hefði Mæja viljað. Hún vildi bara alltaf að allir væru vinir, ekki bara fjölskyldan heldur allir.“
Góðhjörtuð og heillandi
Gestný segir systur sína hafa verið fallega að utan jafnt og innan. „Það geislaði alltaf af henni fegurð. Öllum fannst hún svo falleg. Hún hafði svo fallegt bros. Hún þurfti ekkert að setja á sig varalit, en hún var alltaf svo glæsileg og vel til höfð, þó hún hefði varla þurft að hafa fyrir því. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt það við hana.“
Fjölskyldan vill einblína á jákvæðu hliðarnar, til þess að heiðra minningu Maríu sinnar. „Mig langar að segja frá Mæju systur minni eins og hún var, sem er dásamleg og glæsileg manneskja. Hún var bara svo falleg bæði utan sem innan. Hún var mér sem önnur mamma frá því að ég var lítil. Hún var besta mamma í heiminum. Hún og Kamela systir okkar voru bestu vinkonur. Það var alltaf mikil gleði í kringum hana og hún var rosalegur húmoristi. Við vorum öll svo náin systkinin. Hún var með mynd af Sturlu bróður sínum og Silju dóttur hans á náttborðinu sínu. Mér fannst það svo fallegt að sjá þegar við vorum þarna fyrir nokkrum dögum. Hún var bara svo falleg í sér og góðhjörtuð. Hún heillaði alla sem hún hitti.“
Ástarengill á Kaffi Rós
María Ósk var hrókur alls fagnaðar og hafði óbilandi trú á litlu systur sinni, en það voru einmitt þeir eiginleikar sem urðu til þess að Gestný kynntist manninum sínum. „Það eru óteljandi margar gleðistundir með henni Mæju. Ég hefði til að mynda aldrei hitt manninn minn ef ekki fyrir hana Mæju. Við bjuggum allar á Hveragerði og hana langaði svo að fara á Kaffi Rós í Hveragerði og dró okkur systurnar með sér. Mér fannst alltaf svo óþægilegt að fara með henni á eitthvað djamm því mér leið eins og ég væri að fara með mömmu minni.
„Þegar ég sá hann þá vissi ég að þetta yrði maðurinn minn. Þetta hefði aldrei gerst ef ekki fyrir Mæju“
Hún dregur mig samt með og þegar ég labba inn þá sé ég manninn minn á trommusettinu og það var svona sálumót. Þegar ég sá hann þá vissi ég að þetta yrði maðurinn minn. Þetta hefði aldrei gerst ef ekki fyrir Mæju. Hún hafði svo mikla trú á mér sem söngkonu og hún fór bara og talaði við hljómsveitina og spurði hvort ég mætti taka lagið með þeim, án þess að spyrja mig. Svo kom hún til mín og sagði: „Getur þú tekið lagið með þeim, þeir eru búnir að segja já, plís fyrir mig, bara fyrir mig.“ Ég sagði fyrst bara nei glætan, en að lokum gaf ég eftir, bara fyrir hana. Ég söng lagið og hún stóð fyrir framan mig alveg klökk. Ég get séð það enn þá fyrir mér, hana bara langaði að fara að gráta því henni fannst svo fallegt og hún hafði svo mikla trú á mér. Svo kom ég niður af sviðinu og þetta var alveg óæft, ég kunni ekki einu sinni textann.“
„Amma Mæja er komin til Jesú núna“
Gestný segir Maríu hafa verið einstaklega góða móður og það sé sérstaklega erfitt að hugsa til þess missis sem þau bera af andláti hennar. „Þetta er ótrúlega erfiður missir. Hún skilur eftir sig fjögur börn og tvö barnabörn, en ég veit bara að hún elskaði þau út af lífinu, öll sömul. Hún var alltaf að leika við þau og fara í útilegur þegar krakkarnir voru yngri. Hún var bara svo góð mamma og hana langaði alltaf að gera allt fyrir börnin sín.“
Aðstandendur Maríu eru fyrst og fremst að hugsa um börnin á þessum erfiðu tímum. „Við viljum bara sýna henni virðingu, við elskum hana og höfum alltaf gert. Þegar systir mín - eða reyndar dóttir hennar, en ég kalla börnin hennar Mæju systkini mín - sagði dóttur sinni frá því hvað gerðist þá sagði hún „Amma Mæja vildi fara til Jesú, hún er komin til himna núna.“
„Hún var bara svo góð mamma og hana langaði alltaf að gera allt fyrir börnin sín“
Söfnunarreikningur fyrir aðstandendur Maríu
Til þess að hjálpa fjölskyldu Maríu Óskar að standa undir kostnaði við útförina hefur söfnunarreikningur verið stofnaður til styrktar þeirra.
Kennitala: 130487-3009
Að lokum vill Gestný koma því til skila að allir sem þekktu systur hennar séu velkomnir til hennar. „Ég vil að fólk viti að heimilið mitt er opið fyrir alla hennar vini og okkar vini. Oft er bara gott að hittast, þó fólk viti ekki alltaf hvernig það á að haga sér við svona aðstæður.“
Athugasemdir