Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Niðurlægingin: Þau verst settu eru skilin eftir

Ör­yrkj­ar eru brot­hætt­ur hóp­ur fólks á jaðri fá­tækt­ar. Flók­ið al­manna­trygg­inga­kerfi, lág­ur ör­orku­líf­eyr­ir, nið­ur­læg­ing og skömm er raun­veru­leiki okk­ar allra við­kvæm­ustu ein­stak­linga. Vegna kerf­is­ins geta þeir neyðst til að senda barn sitt út af heim­il­inu eða skilja við maka sinn á gam­als aldri til að forð­ast skerð­ing­arn­ar. Þing­menn hafa feng­ið fimmtán­falda kjara­bót á við ör­yrkja á kjör­tíma­bil­inu.

Í kjarabót síðustu ára hafa einhverjir þeir verst settu í samfélaginu, fólk með örorku og skerta starfsgetu, orðið út undan. Kaupmáttur þeirra hefur aðeins aukist um 1 prósent á meðan kaupmáttur almennt hefur aukist um 15 prósent. Ekki er gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði í útreikningi á þörf þeirra á tekjum, þrátt fyrir að húsnæðiskostnaður hafi stóraukist á sama tímabili. Sumir þeirra þurfa að banna börnum sínum að vera í skóla eftir 18 ára aldurinn vegna þess að bætur þeirra lækka við að börnin nái 18 ára aldri. Og fæstir öryrkjar fá fullar bætur, því kerfið gengur út á að skerða sem flesta.

„Við létum lesa okkur sundur núna í vor,“ segir bótaþeginn Einar Sigfússon, sem þurfti að skilja við eiginkonu sína til að verða ekki skertur um bætur eftir sjö ára baráttu við kerfið um orðabókarskilgreiningu. „Þá loksins fékk ég hana til þess, hún hafði alltaf beðið mig um að gera það ekki.“ Hjónin eru því fráskilin á gamals aldri til að lifa af í kerfinu.

Dagný Björk Egilsdóttir var svo óheppin að veikjast af tauga- og verkjasjúkdómnum vefjagigt eftir eins árs nám í Danmörku. Vegna þess að hún bjó erlendis mun íslenska ríkið láta hana bíða í þrjú ár eftir að hún fái einhvern endurhæfingarlífeyri. Hún kærði niðurstöðuna, en hefur beðið úrskurðar í ár.

Staða þeirra verst settu er styrkurinn

Í nýársávarpi sínu á nýársdag sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, að mælikvarði á styrk ríkis og þjóðfélags væri ekki metinn eftir hagvexti eða þjóðarframleiðslu, heldur því hvernig farið væri með þá verst stöddu í samfélaginu. „Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu. Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd.“

Þá sagði forsetinn að mikilvægt væri að koma í veg fyrir að „fólk festist í fátækt og forlagafjötrum“: „Um leið eiga allir að geta spreytt sig, skarað fram úr, efnast, gert vel við sig og sína en goldið sanngjarnan skerf til samfélagsþarfa,“ sagði forsetinn.

Það kerfi sem öryrkjar búa við á Íslandi í dag fyrirmunar þeim hins vegar að bæta stöðu sína og ýtir undir að börn þeirra festist í fátæktargildru.

Allir flokkar voru sammála um að breyta kerfinu fyrir kosningarnar, en í síðustu fjárlögum, sem voru afgreidd í miklum flýti og við litla umræðu, voru boðaðar breytingar ekki innleiddar.

Öryrkjar skildir eftir í kreppunni

Þegar rætt er um kjör öryrkja er nauðsynlegt að byrja á því að skoða þau í samanburði við kjör annarra landsmanna. Þá er handhægt að byrja á því að bera þau saman við þróun launa fullvinnandi fólks á almennum vinnumarkaði frá hruni, þegar talsverð skerðing varð á kjörum lífeyrisþega landsins.

Nýlega tók Hagfræðistofnun Háskóla Íslands saman útreikninga þar sem borin er saman kaupmáttarþróun heildartekna örorkulífeyrisþega og heildarlauna fullvinnandi fólks frá árinu 2009 til ársins 2015. Tölur ársins 2016 eru ekki enn komnar fram og því vantar forsendur til að reikna út þróunina fyrir árið 2016.

Útreikningarnir byggjast á tölum Hagstofu Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Kaupmáttur heildartekna örorkulífeyrisþega var 9% lægri árið 2011 en árið 2009 og lækkaði mun meira hjá örorkulífeyrisþegum en hjá launafólki.

Hagur ýmissa hópa fór að vænkast eftir hrun en örorkulífeyrisþegar sátu eftir. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 segir: „Vaxandi vinnuaflseftirspurn, miklar launahækkanir í kjarasamningum, hagstæð gengisþróun, minnkandi verðbólga og batnandi kaupmáttur einkenndu árið 2015.“

Kaupmáttur heildartekna örorkulífeyrisþega árið 2015 var nær sá sami og árið 2009, hafði einungis hækkað um 1%, þrátt fyrir lága verðbólgu. Hins vegar hafði kaupmáttur heildarlauna fullvinnandi hækkað um 15% á tímabilinu.

Samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er kaupmáttur lágmarkslauna fyrir skatt um 26% hærri 2015 en árið 2009. Kaupmáttur óskerts lífeyris hefur hins vegar aðeins hækkað um 2% á sama tímabili.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands reiknaði enn fremur út þróun kaupmáttar fyrir óskertan lífeyri almannatrygginga og lágmarkslaun frá árinu 2009. Örorkulífeyrisþegi sem er með óskertan lífeyri hefur engar aðrar tekjur til framfærslu en lífeyri almannatrygginga.

Lífeyrisþegar með lágar aðrar tekjur geta einnig fallið hérna undir, en vegna „krónu á móti krónu skerðinga“, sem verður útskýrð síðar, geta þeir verið með sömu heildartekjur og lífeyrisþegar sem einungis fá greiddan óskertan lífeyri.

Óskertur lífeyrir er um 80% af lágmarkslaunum. Rétt er að geta þess að þrátt fyrir hækkanir síðustu ára eru lágmarkslaun einungis 260.000 kr. fyrir skatt og duga ekki til mannsæmandi framfærslu. Sjálfur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur svarað því til að hann myndi ekki treysta sér til að lifa af lægstu launum og hann mun því varla treysta sér til að lifa af óskertum lífeyri. 

Sagði ekki endalaust hægt að hækka laun

„Auðvitað myndi mér ekkert lítast á að framfleyta mér og mínu fólki á þeim kjörum. Það er alveg augljóst,“ sagði fjármálaráðherra í Bítinu á Bylgjunni í apríl 2015. Þar sagði Bjarni að í samfélaginu væri krafa um að kjörin tæki að batna og það væri skiljanleg krafa, eftir hagræðingar og samdrátt í kjölfar hrunsins. Góðu fréttirnar væru kannski þær að það væru allar horfur til þess að hægt væri að halda áfram að bæta kjör fólks, því „landsframleiðsla væri komin aftur upp í fyrri hæðir og kaupmáttur sá mesti í Íslandssögunni“, eins og hann orðaði. Hann lét hins vegar spurningum um af hverju væri ekki hægt að hækka lægstu laun ósvarað, en sagði seinna að það væri vilji til þess að „lyfta öllum upp frá botninum“: „En hvar er það þjóðfélag sem menn vilja ekki gera betur við þá sem eru á lægstu töxtum? Ég veit ekki til þess að það sé til.“

„Ég næ samt aldrei endum saman, alveg sama hvað maður gerir, alltaf í vandræðum.“

Aðeins ein leið væri í þeirri stöðu og hún fælist ekki í því að „tvöfalda þau laun eða þrefalda þau, eða stórhækka þau þannig að við reynum að sækja eitthvert annað í launastigann. Það er ekki endalaust hægt að gera það þannig,“ heldur væri aðalatriði að „skapa verðmæti til að skapa tækifæri, traustan grunn og veita alvöru viðspyrnu til að bæta þessi kjör.“ 

Við sama tækifæri var hann einnig beðinn um skoðun sína á því að stjórnarmenn í Granda hefðu hækkað launin sín um 33%, um leið og eigendurnir fengu 2,7 milljarða arð en starfsfólkið fékk frostpinna sem þakklætisvott fyrir að tvöfalda afköstin. Svar Bjarna var afdráttarlaust: „Mér finnst það vera taktlaus aðgerð, eins og menn séu ekki í neinum tengslum við það sem er að gerast. Það blasir við.“ 

Launahækkun þingmanna mun meiri

Óskertur örorkulífeyrir var rúmlega 218 þúsund krónur á síðasta ári. Á því ári, nánar tiltekið með ákvörðun kjararáðs á kjördag, fengu alþingismenn launahækkun upp á 338 þúsund krónur á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu því um meira en ein og hálf óskert örorkulaun. Þingmenn hækkuðu þar um 45 prósent í launum, en þeir hafa samtals hækkað um 74,8 prósent frá árinu 2013. 

Ráðherrar hækkuðu hins vegar meira í launahækkun sem kjararáð úthlutaði þeim á kjördag, 29. október. Þeir hækkuðu um hálfa milljón króna eða um 2,3 örorkulaun á einu bretti.

Þrátt fyrir áskorun forseta Íslands til alþingismanna um að „vinda ofan af“ launahækkun þingmanna, ráðherra og forseta, hafa forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar lýst yfir að lítill vilji sé til þess.

Niðurstaðan er því sú að á sama tíma og þingfararkaup alþingismanna hefur hækkað úr 630 þúsund krónum í 1,1 milljón króna, eða um 470 þúsund krónur frá árinu 2013, hefur óskertur örorkulífeyrir hækkað um tæpar 32 þúsund krónur. Það jafngildir því að hækkun á kjörum öryrkja er tæplega 7 prósent af kjarabót alþingismanna á síðasta kjörtímabili og hafa þingmenn því fengið tæplega fimmtánfalda kjarbót á við öryrkja. Öfugt við öryrkja eru laun þingmanna ekki skert heldur fá þeir ýmiss konar álagsgreiðslur, frá fimm til fimmtán prósent fyrir nefndarsetu, sem og margs konar endurgreiðslur af kostnaði, sem geta numið allt að um 400 þúsund krónum á mánuði. 

Lág prósentuhækkun á lága framfærslu skilar litlu

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í september síðastliðnum var gert ráð fyrir 9,7% hækkun á örorkulífeyri árið 2016. Við hækkunina var tekið mið af því að bætur almannatrygginga höfðu þegar verið hækkaðar um 3% þann 1. janúar 2015, sem þýddi hækkun bóta um rúmar 5000 krónur fyrir örorkulífeyrisþega. Hækkunin sem tók gildi nú um áramótin skilar öryrkjum með óskertar tekjur rúmum 19 þúsund króna hærri lífeyri, fyrir skatt.

Mikil óánægja var meðal öryrkja með þessar hóflegu hækkanir. Benti Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, meðal annars á hversu litlu prósentuhækkunin skilaði. „Þegar við erum að tala um svona prósentuhækkun á svona lága framfærslu eins og örorkulífeyrinn er þá er þetta engin hækkun. Þetta er ekki hækkun sem breytir neinu í lífi fólks,“sagði Ellen.

Í heild hækkar lífeyrinn aðeins um ellefu þúsund krónur á mánuði, eftir skatt. „Það lifir enginn mannsæmandi lífi á Íslandi með 197 þúsund krónur á Íslandi. Það er bara ekki hægt að lifa á því,“ segir Ellen.

Neysluviðmið tekur ekki til húsnæðis

Þegar litið er til þess hvað ríkið telur einstaklinga þurfa háa krónutölu um hver mánaðamót er handhægt að skoða reiknilíkan velferðaráðuneytisins. Fyrir einstæðing sem býr á höfuðborgarsvæðinu reiknar ráðuneytið út að þurfi 222.764 krónur til þess að lifa af. Sú tala tekur þó ekki til húsnæðiskostnaðar, sem hefur aukist gríðarlega, en samkvæmt tölum frá Þjóðskrá á árinu hefur leiguverð í Reykjavík hækkað um 53,4% á sama tíma og kaupmáttur óskerts lífeyris hefur hækkað um 1%.

Í febrúar 2011 lagði Guðbjartur Hannesson, sem þá var velferðarráðherra, fram skýrslu sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimilin á Íslandi. Í skýrslunni er sagt að neysluviðmið séu meðal annars höfð til hliðsjónar við stjórnvaldsákvarðanir er varða viðmiðunarfjárhæðir til framfærslu. „Slík viðmið hafa reynst góður grunnur við ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu, til dæmis í trygginga- og bótakerfi.“

Neysluviðmið velferðarráðuneytisins eru því mótandi þegar kemur að fjárhæðum sem meðal annars öryrkjar fá greiddan í lífeyri.

Á vef ráðuneytisins og í skýrslunni kemur fram að flestar þær ábendingar sem ráðuneytinu bárust vegna skýrslu hópsins sneru að kostnaði vegna húsnæðis. Þar kemur fram að ekkert hinna Norðurlandanna hafi búið til viðmið vegna húsnæðiskostnaðar og því hafi sú ákvörðun verið tekin við uppfærslu viðmiðanna árið 2012 að fella húsnæðiskostnað úr íslensku neysluviðmiðunum. Við útreikning lífeyrisgreiðslna er því ekki gert ráð fyrir því að fólk þurfi að greiða af húsnæði, hvort sem það er leiga, afborganir af lánum, viðhald eigna, rafmagn eða hita.

Kostnaður af húsnæði er þó reiknaður út í skýrslunni. Ef um er að ræða barnlausan einstæðing er neysluviðmið hans, án húsnæðis, 218.960 krónur árið sem skýrslan var gerð, 2010. Það heggur ansi nærri viðmiðum í reiknilíkani velferðaráðuneytisins sem var uppfært í júní 2016, þar sem gert er ráð fyrir 222.764 krónum sem einstæðingur þarf til lágmarks framfærslu. Einnig er sú tala ansi nálægt því sem einstæður öryrki með heimilisuppbót fær, eftir skatt: 207.147 krónur.

Í skýrslunni er gert ráð fyrir því að hægt sé að leigja húsnæði á 58.650 krónur, en með rafmagni, hita og viðhaldi fari sá kostnaður upp í 72.972 krónur. Þar með séu heildarútgjöld viðkomandi komin upp í 291.932. Sú tala sem þarna er reiknuð út, en húsnæðiskostnaður svo skorinn af, gerir ráð fyrir mjög lágu leiguverði, en fátítt verður að teljast að einstæðingar geti leigt sér íbúð á því verði sem þarna er reiknað með.

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili var að auglýsa 20 fermetra herbergi í raðhúsi í 103, með sameiginlegu eldhúsi, baði og þvottahúsi með fleiri leigjendum, til langtímaleigu á 115 þúsund krónur á mánuði.  

Höfum þetta í huga þegar við förum svo aftur yfir tölur Þjóðskrár um þróun leiguverðs. Sem dæmi má taka að 50 fermetra, tveggja herbergja íbúð, sem er dæmigerð fyrir einstæðing, á svæðinu vesta við Kringlumýrarbraut, hefði kostað að meðaltali um 81.850 krónur á mánuði í janúar 2011. Í júlí 2016, rúmum fimm árum síðar þyrfti að greiða um 125.600 krónur fyrir sambærilega íbúð. Sé reikninvél Tryggingarstofnunar fyrir örorkulífeyri skoðuð fengi einstæðingur með ónýttan persónuafslátt 207.147 krónur eftir skatt. 

Ef gert væri ráð fyrir því að lífeyrisþegi sé að leigja íbúðina sem tekin var sem dæmi hjá Þjóðskrá, á þessi einstaklingur, eftir að hafa greitt leigu, 81.547 krónur til þess að lifa á út mánuðinn. Það er umtalsvert lægri upphæð en þær 222.764 krónur sem velferðaráðuneytið gerir ráð fyrir því að einstæðingur þurfi til framfærslu, fyrir utan húsnæðiskostnað.

Samkvæmt tölum frá 2015 eru 17.275 örorkulífeyrisþegar á landinu. Um 10% þeirra fá greiddan örorkulífeyri, með heimilisuppbót og sérstaka framfærsluuppbót. Hin 90% örorkulífeyrisþega fá því ekki þessar hæstu mögulegu greiðslur og þurfa því að lifa við enn rýrari kost en hér er notaður við útreikninga.

Króna á móti krónu skerðing

Hvað er þá til ráða fyrir öryrkja sem hafa bæði getu, vilja og þörf til þess að bæta kjör sín? Reyni þeir að gera það á vinnumarkaði gæti það reynst þeim erfitt vegna þeirra skerðinga sem allar tekjur valda á greiðslum örorkubóta.

Það er kallað krónu á móti krónu skerðing þegar lífeyrisgreiðslur eru skertar um krónu fyrir hverja krónu sem lífeyrisþegi vinnur sér inn, og þá er tekið til allra tekna. Skerðingin tekur til þess sem kallað er sérstök framfærsluuppbót. Það þýðir að ef örorkulífeyrisþegi vinnur sér inn 20 þúsund krónur, eftir skatt, þá skerðast greiðslur til hans frá Tryggingastofnun um 20 þúsund krónur.

Breytingar á almannatryggingarkerfinu sem samþykktar voru af síðustu ríkisstjórn og taka gildi um áramótin gera þó engar breytingar sem lúta að krónu á móti krónu skerðingum. Það gerir fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar, sem samþykkt var af nýkjörnu þingi ekki heldur.

Stundar frekar sjálfboðastarf en vinnu

Kona sem Stundin ræddi við, og vill vera nafnlaus og við skulum kalla Bertu, hefur ítrekað reynt að taka þátt á vinnumarkaði en alltaf hrökklast út aftur. Ástæðan er sú að skerðingarnar gera það að verkum að ekki borgar sig fyrir fólk að vera á vinnumarkaði samhliða örorkulífeyri.

Berta vill fá að vinna og skila sínu til þjóðfélagsins, en vegna þeirra skerðinga sem hún hefur lent í með tilraunum sínum til atvinnuþátttöku stundar hún einungis sjálfboðavinnu í dag. „Þegar ég hef reynt að vinna og fara á launaskrá hjá fyrirtækjum þá hef ég farið strax niður í Tryggingastofnun og sagt þeim að ég sé að vinna hérna og fæ þessar 30 þúsund krónur á mánuði.“ Þær upplýsingar taka hins vegar ekki gildi fyrr en um áramót, svo greiðslur Bertu árið á eftir eru skertar sem nemur þeim mánaðarlegu tekjum sem hún var með árið á undan. Vegna ástands síns er Berta oft hætt að vinna á þeim tíma og lifir því við skertar bætur allt árið vegna vinnu sem hún var í árinu á undan. „Ég var alltaf að lenda í því að skulda um áramót. Þetta er ekki mjög hvetjandi kerfi, en ég hef tæklað það með sjálfboðavinnu.“

Berta leigir íbúð hjá félagsbústöðum. Segir hún íbúðina, sem er þriggja herbergja, vera of stóra fyrir sig og hefur hún sótt um minni til þess að lækka leigugreiðslur sem eru 110 þúsund krónur á mánuði. „Ef ég væri á almennum leigumarkaði þá væri ég bara dáin, eða á götunni, þannig ég er betur sett en margur. Rúmlega helmingurinn af mínum tekjum fara í leiguna, svo er það rafmagn, hiti og annað slíkt þar fyrir utan. Þegar ég er búin að borga reikningana þá á ég svona 45-50 þúsund krónur eftir út mánuðinn, fyrir öllu.“ Berta segist vera feimin að segja frá upphæðinni. „Af því að mér finnst þetta svo mikill peningur, en það er bara af því ég á svo litla peninga. Maður einhvern veginn skekkist, þetta er svo mikill peningur af því ég á svo lítið.“ Segist Berta vita af því að fjölmargir séu í svipaðri stöðu en þori hreinlega ekki að segja frá því. „Þetta eru kannski þrjár, fjórar ferðir í Bónus. Svona er þetta.“

„Þegar ég elda þetta þá skammast ég mín bara, en ég verð að borða.“

Ógeðslegur matur og forljót föt

Hún segir lok mánaðarins vera sérstaklega erfið fyrir sig. Þá séu blankheitin algjör, og hún neyðist til þess að borða óhollt því hún hafi einfaldlega ekki efni á hollum mat, sem oft er dýrari. „En síðustu 10 dagarnir eru þannig að þá er ég að borða ógeðsmat. Lifur, nýru, hjörtu, allan innmatinn sem kostar 200 kall. Þegar ég elda þetta þá skammast ég mín bara, en ég verð að borða.“ Um mánaðamót gerir hún svo vel við sig og kaupir sér gott að borða fyrsta daginn. „Annars er þetta bara basl alveg út í gegn.“

Fátæktina segir Berta vera niðurlægjandi. Hún gangi í fötum eins og allir aðrir, en fötin sem hún klæðist séu ekki fötin sem hana langi til að vera í. „Mér finnst ég hallærisleg, á forljóta svarta úlpu og ég get svoleiðis dáið úr skömm þegar ég fer í hana og út í Bónus.“ Hún þurfi að sníða sér stakk eftir vexti og hafi ekki efni á að kaupa sér föt sem henni finnst vera flott. „Föt eru svo stór partur af sjálfsmynd manns. Að þurfa að vera hallærislegur alla daga, það er bara ferlegt.“

Uppbót felld niður

Þeir örorkulífeyrisþegar sem búa einir fá sérstaka heimilisuppbót sem er 37.071 króna á mánuði. Um leið og einhver annar býr á heimilinu sem er eldri en 18 ára fellur þessi uppbót niður. Eins og staðan hefur verið á húsnæðismarkaði undanfarin misseri hefur það færst í aukana að ungt fólk býr lengur heima hjá foreldrum sínum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði hlutfall fólks í aldurshópnum 20-24 ára sem bjó í foreldrahúsum um 8,8 prósentustig, fór úr 48,1% í 56,9% á árunum 2005-2015. Á sama tímabili hækkaði hlutfall aldurshópsins 25-29 ára í foreldrahúsum um 5,9 prósentustig, úr 15,5% í 21,4%.

Um leið og barn sem býr á heimili öryrkja er því orðið 18 ára er litið svo á að þar sé um sambúð að ræða og þá fellur heimilisuppbótin um leið niður.

Aldrei haft það eins skítt

Stundin ræddi við öryrkja sem heitir Þórdís sem vill ekki koma fram undir fullu nafni til að vernda börnin sín. Þegar börn Þórdísar urðu 18 ára missti hún heimilisuppbótina sem er 37 þúsund krónur, auk þess sem sérstakar húsaleigubætur féllu niður með þeim afleiðingum að leigan hennar hækkaði um 52 þúsund krónur. Greiðslubyrði hennar jókst því um tæpar 90 þúsund krónur á einu bretti. Eftir þessa skerðingu sé fátækt hennar svo algjör að þau haldi ekki lengur upp á jól eða afmæli. „Það er bara úr sögunni.“

Aðspurð hvort hún hafi beðið börnin sín að flytja að heiman vegna þessarar greiðsluskerðingar sagðist hún ekki hafa látið verða af því, en hún hafi þó hugsað út í það. „Ég hef velt þessu fyrir mér, að ég sé kannski tilneydd að reka börnin mín að heiman. Það munar um hverja einustu krónu. Ef ég missi út eina krónu þá verður enn meiri skortur.“

Börn Þórdísar vinna bæði samhliða skóla, þó það sé erfitt fyrir son hennar, sem er í háskólanámi. Hann er einhverfur sem gerir það að verkum að vinna með námi kemur gríðarlega niður á náminu hjá honum. „En það er bara ekkert annað í stöðunni.“ 

Í tilraun til þess að ná endum saman lætur Þórdís börnin sín borga heim. „Í raun er það orðið svo í dag að þau halda mér uppi eftir að öll leiga og reikningar hafa verið greiddir. Þetta hefur snúist þannig við.“

Þótt hún segist alltaf hafa þurft að kljást við peningaleysi þá sé vandinn orðinn mun víðtækari núna. „Ég get ekkert gert. Ég get ekki einu sinni farið og keypt í matinn. Læknir, lyf, það er alveg sama hvað það er, það eru ekki til peningar fyrir einu né neinu.“

Strætó er lúxus

Niðurskurðinn segir hún svo algjöran að fjölskyldan haldi ekki lengur upp á neinar hátíðir. „Við höldum ekki upp á jól eða afmæli. Það er bara úr sögunni. Í rauninni þyrfti ég að hætta með internet og síma, en það er meira en að segja það að fara út í svoleiðis. Börnin eru enn í námi og þurfa að nota internetið í þeirri vinnu.“ Ástandið sé þannig hjá henni í dag að allt sé orðið lúxus. „Að fara í strætó er lúxus. Bara munaður sem maður leyfir sér ekki. Ef það þarf að kaupa föt eða aðrar nauðsynjar þá getur maður bara gleymt því.“

Framtíðarsýn hennar er svo ekki á þá leið að bjartari tíð sé í vændum. „Maður sér ekkert framundan. Það er ekkert að fara að lagast. Ekki nema hreinlega að börnin mín hætti í námi og fari að vinna fulla vinnu.“ Ástandið á húsnæðismarkaði sé þannig að börnin hennar þyrftu í raun að vera að leggja pening fyrir ef þau ætluðu sér einhvern tímann að komast að heiman. „En það er enginn möguleiki á því.“

Í Kryddsíld Stöðvar 2 þann 31. desember síðastliðinn sagðist Bjarni Benediktsson vorkenna fólki sem væri neikvætt gagnvart ástandinu á Íslandi. „Það þarf náttúrlega einhverja geðveiki til þess að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á,“ sagði Bjarni í þættinum.

„Þá er ég bara geðveik,“ segir Þórdís þegar hún ræðir þessi ummæli Bjarna. „Það er bara svoleiðis. Ég hef aldrei haft það eins skítt. Bara aldrei nokkurn tímann.“

Fátækt viðhaldið kynslóð eftir kynslóð

Öryrki sem vildi vera nafnlaus hafði samband við fréttastofu RÚV í nóvember síðastliðnum hafði lent í sömu reynslu og Þórdís og þurfti í kjölfarið að leita sér aðstoðar vegna fjárskorts og leitaði á náðir hjálparsamtaka til að fá mataraðstoð. Eins og hjá Þórdísi hefur barn viðkomandi hvorki ráð á að leigja né kaupa sér húsnæði.

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir þetta vera þekkt vandamál. Með reglunni um heimilisuppbót sé í raun verið að ráðast gegn fjölskyldugerð lífeyrisþega. „Um allt land búa uppkomin börn heima hjá foreldrum sínum og það hefur orðið ennþá algengara nú vegna húsnæðisvandans. Laun foreldranna lækka ekki við það en það gerir framfærsla lífeyrisþega. Um leið er verið að draga úr tækifærum barna lífeyrisþega til menntunar.“

„Þetta getur bara orðið til þess að foreldrarnir segi við barnið: „Við höfum ekki efni á því að þú sért í skóla.“ Með þessu er verið að viðhalda ákveðinni félagslegri stöðu kynslóð eftir kynslóð. Og hvað gerir barn sem ekki getur farið í skóla? Vinnur láglaunavinnu.“

Skildi við eiginkonuna til að fá uppbót

Einar Sigfússon

Einar Sigfússon, áður öryrki en nú ellilífeyrisþegi, býr einn á sveitabænum Efri Skálateig 2, rétt fyrir innan Neskaupstað. Í tæp sjö ár barðist hann fyrir því að fá greidda heimilisuppbót, eftir að eiginkona hans þurfti að flytja til Akureyrar til að sækja sjúkraþjónustu, en hún þarf á mikilli aðstoð að halda eftir alvarleg veikindi sem hún lenti í fyrir nokkrum árum. Þar sem Einar er sjálfur hjartasjúklingur og nær ógöngufær getur hann ekki veitt konunni sinni sjálfur þá aðstoð sem hún þarf á að halda.

Í vor skildu þau svo samvistum til þess að eiga rétt á heimilisuppbótinni, sem er um 30 þúsund krónur á mánuði, eftir skatt. „Við létum lesa okkur sundur núna í vor. Þá loksins fékk ég hana til þess, hún hafði alltaf beðið mig um að gera það ekki. Hún vildi ekki slíta hjónabandinu,“ segir Einar, sem ekki vildi ganga hart að konu sinni vegna veikinda hennar. „Þetta munaði okkur miklu um, hvort sínar 30 þúsund krónurnar á mánuði. Það er ansi mikil skerðing á lélegri framfærslu að geta ekki fengið 30 þúsund til viðbótar, sem allir aðrir fá nema þeir sem eru kvæntir eða giftir. Þetta er alveg hroðalegt órétti.“

Fyrir um sjö árum var kona Einars komin með annað lögheimili og sótti hann þá um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar sem fólk á rétt á samkvæmt lögum sem er einhleypingar, er eitt um heimilisrekstur og nýtur ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögun við aðra um húsnæðisstöðu eða fæðukostnað.

„Við létum lesa okkur sundur núna í vor.“

Einar uppfyllti öll þessi skilyrði nema þau að vera einhleypingur, en hjúskaparstaða hans í þjóðskrá var þá skráð sem hjónaband án samvistar. Tryggingastofnun synjaði umsókn Einars á þeim forsendum að hann væri kvæntur maður. Einar segir að sér finnist það harður kostur að fólk þurfi að skilja til þess að geta framfleytt sér ef annar aðilinn veikist og telur að um gróft mannréttindabrot sé að ræða.

Einar hefur náð að draga fram lífið, ekki síst vegna þeirrar aðstoðar sem vinir og vandamenn hafa veitt honum, meðal annars í formi matargjafa. Það hafi bjargað því að hann hafi ekki verið hrakinn af heimili sínu. „Ég hef yfirleitt getað fengið fisk, eins og ég hef þurft á að halda.“ Hann segist eiga vini sem stundi sjómennsku eða séu í fiskvinnslu í landi sem hafi aðgang að ódýrum fiski, og þeir hafi jafnvel gefið honum þegar þannig lá við. „Þannig hef ég geta náð mér í billegan mat og lifað mikið á því. En það dregur náttúrlega ekki nema hálfa leið eða þannig.“ Bendir Einar jafnframt á að samkvæmt stjórnarskránni skuli öllum veitt framfærsla til þess að geta framfleytt sér.

Einar SigfússonÁsamt hrossum við bæinn sinn.

Kæru synjað vegna orðabókarskilgreiningar

Einar kærði niðurstöðu Tryggingastofnunar til þáverandi heilbrigðisráðherra en kæran var framsend til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Staðfesti nefndin ákvörðun stofnunarinnar um hálfu ári seinna. Segir í niðurstöðunum að skilgreining á einleypingi samkvæmt íslenskri orðabók (Edda, 2002) hafi að um sé að ræða „ógiftan eða ókvæntan mann.“ Kærandi sé því ekki einhleypingur og þrátt fyrir að hjónin eigi ekki sameiginlegt lögheimili breyti það ekki þeirri staðreynd að þau séu skráð í hjónaband og komi það í veg fyrir að kærandi uppfylli skilyrði laganna um félagslega aðstoð.

Einar sendi í kjölfarið kvörtun til Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, í desember 2010. Í kvörtuninni benti Einar á að samkvæmt reglugerð um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari bætur væri ákvæði þess efnis að vistaðist maki elli- eða örorkulífeyrisþega til frambúðar á stofnun væri heimilt að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót. Niðurstöður Tryggva voru, þrátt fyrir það, að úrskurður nefndarinnar um synjun væri byggður á réttum lagagrundvelli. Eiginkona Einars hefði flutt til Akureyrar og leigt íbúð þar. Þaðan væri henni ekið í þjálfun og til þess að fá þá aðstoð sem hún þyrfti og með það í huga ætti ákvæðið ekki við í máli Einars.

Svo Einar og eiginkona hans neyddust til þess að skilja til þess að eiga rétt á hvort sínum 30 þúsund krónunum í heimilisuppbót. „Það var ekkert um annað að ræða,“ segir Einar, og bætir því við að hann hefði verið búinn að því fyrr, en konan hans var lengi mótfallin því og hann vildi ekki ganga hart að henni vegna veikinda hennar. „Ég fékk son minn sem er lögmaður til að ganga í þetta og fá hana til að koma hér austur, á Seyðisfjörð, þar er sýslumaðurinn okkar núna og láta lesa okkur í sundur.“ Hann segist ekki hafa farið hátt með þennan skilnað, en það muni gríðarlega um þessa örfáu aura sem þau fái nú aukalega. „Ég næ samt aldrei endum saman, alveg sama hvað maður gerir, alltaf í vandræðum. Þannig það munar mikið um þessa aura.“

Segir hann það niðurlægjandi að vera öryrkji. Hann hafi skrifað yfir 30 þingmönnum bréf um málefni þeirra og engin svör fengið. „Og ef einhver svarar þá er það einskis virði.“ Einar býr á sínu eigin heimili, sem hann segir þokkalega reisulegt hús í sveit. Af því þarf hann að borga gjöld, tryggingar og annað af eignum. „Það fara bara mestallir aurarnir í þetta og rafmagn og hita og þá eru þeir bara farnir.“ Af þessum sökum segist Einar meina sér um allan munað. „Það er ekkert orð annað um það. Maður meinar sér um alla hluti. Það er ekki hægt að leyfa sér nokkurn skapaðan hlut.“

Stuðningsnetið sem börn þeirra hjóna eru segir Einar vera það sem hafi bjargað sér í gegnum þennan barning. „Það eru krakkarnir. Við eigum fimm börn og höfum alltaf verið lofuð sérstaklega fyrir barnalán.“ Þau hafi verið einstaklega heppin að eiga svo dugmikil og hjálpsöm börn. Án þeirra sé óvíst hvernig ástandið væri. Hann tekur jafnframt fram hversu sárt það sé fyrir fólk með lítið á milli handanna að ala upp börn. „Ég held það geri sér enginn grein fyrir því nema þeir sem eiga krakka og hafa búið við erfiðleika, hvað það er mikil sorg og erfiðleikar að það sé ekkert hægt að hjálpa þessum krökkum ef þau lenda í vandræðum. Það er mörg sorgin, maður lifandi. Óskaplegar sorgir.“

Fá skertar greiðslur vegna fyrri búsetu

Eitt af helstu baráttumálum Öryrkjabandalagsins hefur verið að breyta löggjöfinni varðandi skertar lífeyrisgreiðslur vegna búsetu. Í stuttu máli fær einstaklingur sem búið hefur í öðru landi en Íslandi frá 16 ára aldri fram að þeim tíma sem örorkumat fer fram skertar lífeyrisgreiðslur. Hafa einstaklingar sem unnið hafa erlendis, verið í námi sem og erlendir ríkisborgarar því aðeins brot af mögulegum hámarksgreiðslum. Samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun fyrir september 2015 voru 1.110 örorkulífeyrisþegar með búsetuhlutfall lægra en 100%.

Öryrkjum í þessari stöðu er ætlað að lifa á skertum örorkulífeyri á meðan beðið er eftir ákvörðun um örorkumat og örorkubætur frá fyrra búsetulandi eða sökum þess að fyrra búsetuland hefur synjað um örorkumat. Einstaklingar geta þurft að lifa á skertum búsetuskertum greiðslum oft árum og áratugum saman.

Reglur um hlutfallslegan lífeyri vegna búsetu byggja á því að fólk fái greiðslur frá fyrra búsetulandi. Samkvæmt tölum frá velferðarráðuneytinu kemur fram að árið 2014 fengu 88,4% af örorkulífeyrisþegum með hlutfallslegar greiðslur vegna fyrri búsetu erlendis, engan lífeyri frá fyrra búsetulandi. Af þessu má ráða að forsendur þær sem stjórnvöld gefa sér fyrir hlutfallsútreikningi lífeyris eru ekki fyrir hendi í flestum tilvikum.

Veiktist í læknisnámi og er réttlaus í þrjú ár

Þegar einstaklingur veikist eða slasast fer hann fyrst á svokallaðan endurhæfingarlífeyri. Á þeim tíma er reynt að veita viðkomandi nauðsynlegan stuðning á meðan heilsu er náð aftur, ef það er möguleiki. Skert búsetuhlutfall skerðir einnig greiðslur endurhæfingarlífeyris og hafa margir fundið fyrir því á eigin skinni.

Fær engar tekjur eftir áfalliðDagný kom veik heim og að lokuðum dyrum kerfisins vegna þess að hún hafði búið erlendis í eitt ár. Mynd Kristinn Magnússon

Dagný Björk Egilsdóttir var í námi í rannsóknarlæknisfræði í Danmörku þegar hún veiktist af tauga- og verkjasjúkdómnum vefjagigt og þurfti að taka sér hlé frá námi og að lokum hætta svo alveg. Í Danmörku hafði hún ekki búið nógu lengi til þess að vinna sér inn réttindi úr almannatryggingakerfinu þar, svo hún neyddist til þess að flytja aftur heim. Þegar hún kom til Íslands voru svo móttökur kerfisins heldur kaldar. Henni var sagt að hún þyrfti að bíða í þrjú ár eftir því að komast á endurhæfingarlífeyri.

Henni þykir hart að missa öll réttindi við það eitt að hafa búið í útlöndum í rúmt ár. „Ég hef búið allt mitt líf á Íslandi og borgað skatta hér. Foreldrar mínir hafa borgað hér skatta. Svo missir maður öll þessi réttindi á svona stuttum tíma,“ sagði Dagný í samtali við Stundina. 

Í janúar í fyrra kærði Dagný niðurstöðu Tryggingastofnunar, um að hún þyrfti að bíða í þrjú ár áður en hún ætti rétt á endurhæfingarlífeyri, til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Nefndin gefur sér þrjá mánuði til þess að fara yfir málið og rann sá tími út í maí. Kæra Dagnýjar er því að verða eins árs um þessar mundir án þess að hún hafi fengið niðurstöðu í sitt mál. „Þeir hafa þrjá mánuði til þess að fara yfir málið og svara manni og þessi þrír mánuðir eru náttúrlega löngu liðnir. Ég hef ekkert svar fengið enn þá.“

„Ég hef búið allt mitt líf á Íslandi og borgað skatta hér.“

Dagný hefur því þurft að reiða sig á hjálp foreldra sinna upp á mat og húsnæði. „Auðvitað finnst mér kerfið hafa brugðist mér. Ég fékk ekki heldur neina hjálp í kerfinu í Danmörku, af því ég var ekki búin að vera nógu lengi til að eiga rétt þar, en samt nógu lengi til þess að missa öll réttindi hérna. Þannig að ég hef lent á milli, ekkert kerfi sem tekur við mér.“

Ekki velkomin neins staðar

Þegar Jóhanna Þorsteinsdóttir var 16 ára flutti hún ásamt foreldrum sínum til Danmerkur. Hún veiktist alvarlega þremur árum seinna og þurfti að taka langt frí frá vinnu, en hún hafði numið rennismíði í landinu. Ári seinna, þegar Jóhanna var tvítug, greindist hún svo með alvarlegan geðrofsjúkdóm.

JóhannaÞurfti að flytja til Danmerkur, frá fjölskyldu sinni á Íslandi, til að fá hjálp við hæfi.

Þá voru foreldrar hennar fluttir til Íslands en þar hafði faðir hennar fengið þær upplýsingar að hún gæti flutt heim, farið í endurhæfingu og komist þannig aftur út á vinnumarkaðinn. Það varð til þess að hún flutti heim með allt sitt hafurtask, en þegar hún sótti um endurhæfingarlífeyri var henni sagt það sama og Dagnýju, að hún þyrfti að búa á Íslandi í þrjú ár áður en hún gæti sótt um endurhæfingu eða örorku. Jóhanna sótti því um framfærslu frá sveitarfélaginu sínu.

Að þremur árum liðnum fékk Jóhanna loks samþykkta 75 prósent örorku hjá Tryggingastofnun, en búsetuskerðingin gerir það að verkum að hún fær ekki nema 47 prósent örorkulífeyri. Hún fékk einnig þær upplýsingar, eftir að hafa kært málið til úrskurðarnefndar almannatrygginga, að hún hefði í raun geta sótt um örorkubætur 2 árum fyrr.

Jóhanna krafðist þess þá að fá bæturnar greiddar aftur í tímann og vann það mál. Við það voru bæturnar hennar hins vegar lækkaðar niður í 21 prósent af heildarupphæð vegna óafturkræfrar búsetuskerðingar. Staðan hjá henni í dag er því sú að hún fær 40 þúsund krónur greiddar í örorkulífeyri. „Ég er ekki velkomin neins staðar, þannig er staðan því miður,“ sagði hún í viðtali við Fréttatímann síðasta sumar.

Vegna þessa ástands þurfti Jóhanna að flytja aftur til Danmerkur, þrátt fyrir að fjölskylda hennar búi öll á Íslandi, því þar úti fékk hún þó einhverja aðstoð. „Ég er komin í 50 prósent starf og hér get ég farið í viðtalsmeðferð og fengið heilbrigðisþjónustu sem ég ræð ekki við að greiða fyrir heima,“ sagði Jóhanna. „Þótt maður geti greitt fyrir hana heima kemst maður heldur ekki alltaf að, biðlistarnir eru endalausir.“

Jóhanna segist telja að hún væri löngu komin yfir veikindin og í fulla vinnu hefði henni ekki verið gert svona erfitt fyrir. „Það er búið að svíkja mig svakalega og stöðugur kvíði hjálpar ekki upp á sakirnar. Það er ekki góð blanda að vera veikur, geta varla skrimt og fá ekki heilbrigðisþjónustu, eins og á Íslandi.“

Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja

2010 var Evrópuár gegn fátækt. Í tilefni þess gerðu velferðarráðuneytið, Háskóli Íslands og Öryrkjabandalagið drög að rannsókn um fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja. Í rannsókninni var lögð áhersla á að tala við öryrkja um aðstæður þeirra, daglegt líf, reynslu og afkomu með það að markmiði að afla þekkingar á efnahagslegum og félagslegum aðstæðum þeirra.

Þótt aðeins hafi verið um drög að ræða þá er samantekt rannsóknarinnar sláandi. Þar segir að niðurstöðurnar „birti mynd af öryrkjum sem viðkvæmum  hóp við mörk fátæktar“. Hópurinn sé afar fjölbreyttur en flestir innan hans eigi það sameiginlegt að búa við erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður, fordóma, neikvæða og meiðandi opinbera umræðu „sem birtir þau sem afætur á samfélaginu eða svindlara sem lifa í lúxus á kostnað samborgaranna“.

Einnig var opinber umræða greind af rannsakendum og af henni réðu þeir að það þætti óréttlæti ef öryrki byggi við góðar aðstæður. „Þess í stað virðast flestir gefa sér að hin réttláta skipan í íslensku samfélagi feli það í sér að öryrkjar eigi heima neðst á botninum.“

Við fátækramörk

Fjárhagslegar aðstæður öryrkja eru fyrirferðarmiklar í rannsókninni enda hafa þær mjög mótandi áhrif á lífsgæði þessa hóps. Sýndi rannsóknin fram á að örorkubætur væru svo lágar að öryrkjar byggju við mjög erfiðan fjárhag og margir ættu í erfiðleikum með að tryggja daglegt viðurværi sitt. „Sumir þátttakendur gátu ekki náð endum saman og nokkur hópur fólks í rannsókninni átti ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum síðasta hluta mánaðarins.“ Einnig er tekið fram að samkvæmt flestum, ef ekki öllum viðurkenndum viðmiðunum, væri „stór hluti öryrkja annaðhvort fátækur eða skammt frá mörkum fátæktar.“

Í niðurstöðunum er sérstaklega fjallað um fjölskyldur með börn og unglinga á framfæri. Bent var á að sá hópur væri verst staddur fjárhagslega og átti það sérstaklega við um einstæðar mæður. „Í þessum hópi var fólk sem átti stundum ekki fyrir mat eða öðrum brýnustu nauðsynjum fyrir sig og börn sín og sum leituðu til hjálparstofnana eftir matargjöfum og annarri aðstoð.“ Hópurinn byggi við miklar streitu, kvíða og áhyggjur af afkomu fjölskyldunnar. „Álagið sem þessu fylgdi hafði mjög neikvæð áhrif á fjölskyldulífið og börnin.“

Kerfið óskiljanlegt og refsandi

Einnig er sérstaklega fjallað um þá upplifun öryrkja að flækjustig bótakerfisins og tekjutengdar skerðingar gerðu þeim ómögulegt að bæta aðstæður sínar. Tilraunir þátttakenda í rannsókninni til að hafa áhrif á ytri aðstæður dygðu skammt. „Eina úrræðið var að flestra mati að herða sultarólina og hagræða í heimilisrekstri.“

Eitt af því sem þátttakendur lögðu áherslu á var mikilvægi þess að geta lagt fé til hliðar til að eiga fyrir óvæntum útgjöldum, sem skiptir sköpum ef fólk á að geta forðast fátækt. Tekið er fram að fæstir þátttakenda gætu sparað vegna þess að margir þeirra byggju „í vaxandi mæli við fjárhagsþrengingar vegna hækkandi verðs á nauðsynjavörum og þjónustu, frystingu bótagreiðslna og afnáms ýmiss konar afsláttarkjara.“

Flestir lýstu svo neikvæðum samskiptum sínum við almannatryggingakerfið, lífeyrissjóði og hið félagslega stuðningsnet. Þátttakendur sögðu það bæði mjög flókið og eins væru þeir stöðugt að rekast á hindranir í samskiptum sínum við það. Langur biðtími eftir þjónustu, dónalegt og hrokafullt viðmót starfsmanna sem gefa rangar upplýsingar og hafa ekki þekkingu til að sinna starfi sínu, skortur á upplýsingum frá stofnunum sem sífellt er verið að endurskipuleggja, stokka upp, sameina, breyta um nöfn og fleira slíkt eru meðal þess sem fólk tók til. Þessi reynsla fólks ýtti svo undir vanmáttartilfinningu þeirra gagnvart kerfinu. Það hafði þær afleiðingar að sumir þátttakendur sögðust veigra sér við því að fylgja réttindum sínum eftir eða vefengja ákvarðanir kerfisins af ótta við að verða refsað eða að bætur þeirra yrðu skertar enn frekar.

Þessar erfiðu fjárhagslegu og samfélagslegu aðstæður öryrkja taka sinn toll, og sýndu niðurstöður rannsóknarinnar það svart á hvítu. Þeir upplifa óöryggi, streitu, kvíða og vanlíðan sem fylgir því að berjast sífellt í bökkum. Þetta hefur svo áframhaldandi neikvæð áhrif á líðan og heilsufar. Ekki var óalgengt að þátttakendur í rannsókninni teldu að erfiðar aðstæður hefðu orsakað eða átt þátt í veikindum þeirra, ekki síst þunglyndi eða öðrum geðrænum erfiðleikum. Þótt þátttakendur rannsóknarinnar hafi margir reynt að gera eins gott úr aðstæðum sínum og hugsast gat áttu margir þeirra erfitt með að sætta sig við þær niðurlægjandi aðstæður sem þeim voru búnar. „Áttu erfitt með að horfast í augu við hvernig komið var fyrir þeim og sögðust finna fyrir niðurlægingu og höfnun af hálfu samfélagsins.“

Fyrir kosningar voru allir samþykkir því að fella niður skerðingar

En eftir kosningar fylgir kné ekki kviði.

Í aðdraganda síðustu kosninga spurði Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, formenn og talsmenn allra flokka sérstaklega út í þessa skerðingu sem hamlar möguleika öryrkja til þess að taka þátt í vinnumarkaði. Allir svöruðu spurningunni þannig að þessar skerðingar yrði að taka út úr kerfinu sem allra fyrst. Ellen Calmon, formaður OBÍ, spurði formenn og frambjóðendur þeirra flokka sem nú reyna að mynda ríkisstjórn, sem og settu saman og samþykktu fjárlagafrumvarpið sem nú tekur gildi, eftirfarandi spurningar: „Hún Hanna ber út blöð. Launin fyrir útburðinn eru um 25.000 krónur á mánuði. Vegna svonefndrar krónu-á-móti-krónu skerðingar, sem kallast sérstök framfærsluuppbót, ber hún um 2000 krónur úr býtum. Finnst þér það í lagi?“

Eva Einarsdóttir

Björt framtíð

Eva: Það er alls ekki í lagi. Bjartri framtíð hefur ekki hugnast þessi aðferð sem króna á móti krónu hefur skapað. Hún hefur skapað það að það dregur úr virkni og það dregur úr atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og fólks sem er með skerðingar og það hugnast okkur ekki og þessu þarf að breyta. 

Ellen: Ætlið þið þá að afnema krónu-á-móti-krónu skerðingu á næsta kjörtímabili?

Eva: Ef að við komumst í ríkisstjórn og með okkar samstarfsfélögum þá myndum við vilja leggja áherslu á það, já.

Ellen: Hvenær á næsta kjörtímabili mynduð þið leggja áherslu á það?

Eva: Ég held að það sé brýnt að ganga í það á fyrri helmingi nýs kjörtímabils.

Páll Rafnar Þorsteinsson

Viðreisn

Páll: Nei, það finnst mér ekki í lagi. 

Ellen:  Ætlið þið þá að afnema krónu-á-móti-krónu skerðingu á næsta kjörtímabili?

Páll: Við viljum draga verulega úr tekjutengingum, skerðingum á bótum vegna annarra tekna. Við viljum að fólk nýti þá starfsorku sem það hefur bæði til að afla sér tekna ...

Ellen: Hvenær á næsta kjörtímabili mynduð þið leggja áherslu á það?

Páll: Ég ímynda mér að það geti verið gert snemma eða á miðju kjörtímabili.

Bjarni Benediktsson

Sjálfstæðisflokkurinn

Bjarni: Ég hef aldrei verið hrifinn af sérstöku framfærsluuppbótinni sem Jóhanna Sigurðardóttir innleiddi inn í kerfið á sínum tíma, en við höfum nýlega afnumið hana fyrir eldri borgara. Í mínum huga er það augljóst að næsta skref til að bæta almannatryggingar er að gera breytingar sem snúa að öryrkjum í anda þeirrar vinnu sem hefur átt sér stað undanfarin ár og í því fælist að við myndum afnema sérstöku framfærsluuppbótina. 

Ellen: Hvenær á næsta kjörtímabili yrði það gert? 

Bjarni: Við vorum tilbúnir til að ganga frá þessu á þessu kjörtímabili, við náum því miður ekki almennilega saman með Öryrkjabandalaginu. Það voru þættir sem sneru að starfsgetumatinu og útfærslu á þessum þáttum sem stóðu út af. Mér finnst að menn verði einfaldlega aftur að taka upp þráðinn og ljúka þessari vinnu, gera kerfið réttlátara, einfaldara, skilvirkara, og það þýðir að við hættum skerðingum krónu á móti krónu, ... og höfum frítekjumörk eins og á við í þessu tilviki þannig að fólk geti verið með framfærslu. Við erum flokkur sem vill hjálpa fólki til sjálfshjálpar og í því felst að fólk má ekki festast í fátæktargildru, það má ekki verða í þannig stöðu að um leið og það sækir sér einhverjar viðbótartekjur, jafnlágar og við erum að tala um hér, 20 þús. kr. þá falli niður bætur upp á sömu fjárhæð á sama tíma. Þetta má ekki verða svona. 

Karl Garðarsson

Framsókn

Karl: Nei, mér finnst það ekki í lagi. Við þurfum að ljúka við heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Við þurfum líka að afnema þessa krónu á móti krónu skerðingu, hún er ótæk í dag og hún er vinnuletjandi og hún er til skaða og vansa og þetta er mál sem við verðum að afnema. Við þurfum líka að hækka örorkulífeyrinn og við verðum að taka upp starfsgetumat, það er líka á okkar lista. 

Ellen: Ætlið þið þá að afnema krónu á móti krónu skerðingu á næsta kjörtímabili? 

Karl: Já. 

Ellen: Hvenær á kjörtímabilinu yrði það? 

Karl: Sem allra fyrst. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár