Spánn—Frakkland: Viðureignir á vígvöllunum

Spánn og Frakk­land munu í dag, 9. júlí, keppa í undanúr­slit­um Evr­ópu­móts­ins í fót­bolta karla. Lið­in hafa mæst 36 sinn­um á fót­bolta­vell­in­um og hafa Spán­verj­ar unn­ið 16 sinn­um en Frakk­ar 13 sinn­um. En hvernig hafa hin raun­veru­legu stríð þjóð­anna end­að?

Spánn—Frakkland: Viðureignir á vígvöllunum
Málverk Francisco Goya, 3. maí 1808, lýsir dramatískum atburðum í átökum Spánverja og Frakka á fyrsta áratug 19. aldar. Daginn áður höfðu borgarar í Madrid gert uppreisn gegn yfirgangi Frakka, sem þá höfðu her í borginni. Frakkar bældu uppreisnina niður með hörku og tóku af lífi forsprakka hennar. Frakkakeisari gerði svo bróður sinn að konungi Spánar. Mynd Goya varð hins vegar öflugt tákn um hervaldið sem bælir niður vilja fólksins með grimmilegu ofbeldi.

Það er ein af brellum sögunnar að þegar Filippus 6. Spánarkonungur tekur sér sæti í stúkunni í Allianz Arena í München í dag til að horfa á leik Spánverja og Frakka í undanúrslitum Evrópumótsins í fótbolta, þá er hann þar sem afsprengi konungsættar frá Frakklandi en sem var afsköffuð í hinu franska heimalandi sínu fyrir 176 árum.

Filippus er nefnilega af Bourbon-ættinni frönsku sem tekin var til konungs á Spáni árið 1700 þegar sonarsonur Loðvíks 14. sólarkonungs Frakka var gerður konungur á Spáni.

Frá því hvernig það vildi til og hvernig nokkrar helstu styrjaldir Frakka og Spánverja framgengu, frá því verður sagt hér.

Ekki þarf að koma á óvart þótt Frakkland og Spánn hafi haft margt saman að sælda gegnum tíðina og ekki alltaf farið með friði hvort ríkið gegn öðru. Þetta eru jú nágrannaríki og hafa bæði oftar en ekki verið í tölu stórvelda og því ýmist haft sameiginlega hagsmuni eða þeir skarast illilega.

Hættu að skilja hverjir aðra á 9. öld

Bæði löndin voru undir stjórn Rómverja öldum saman og eiga að því leyti sameiginlegan arf og tungumál beggja þróuðust frá latínu. Eftir að Rómaveldi í vestri féll komust bæði löndin undir germanska þjóðflokka úr norðri og austri en á 8. öld skildu leiðir.

Þegar best lét í ríki Mára á Spáni var það mesta menningarríki Evrópu. Frá þeim tíma eru meðal annars glæsileg mannvirki í Granada, svo sem Alhambra-höllin.

(Nokkru seinna, eða á 9. öld er yfirleitt sagt að tungumálin hafi verið orðin svo ólík að franska og spænska hafi verið orðin aðskilin tungumál. Þar er raunar um mikla einföldun að ræða en hún verður að duga hér.)

Mestallur Spánn lenti á 8. öld undir múslimum sem gerðu innrás frá Norður-Afríku — voru kallaðir Márar, já — en sókn Mára enn norðar á bóginn inn í Frakkland var hins vegar hrundið. Héruð Baska og nokkur svæði í Galisíu á norðvestur-Spáni komust þó aldrei undir stjórn Mára.

Fyrsta bókmenntaverkið á frönsku gerist á Spáni

Næstu 700 árin og rúmlega það í sögu hins kristna Spánar fóru fyrst í að þola yfirráð Mára og því næst ýta þeim hægt og hægt út úr landinu aftur.

Á meðan varð Frakkland um stund risaveldi í Evrópu undir stjórn Karls mikla (eða Karlamagnúsar).

Athyglisvert er að þótt Pýreneafjöllin, sem mynda hin náttúrulegu landamerki landanna tveggja, hafi jafnan reynst slíkur farartálmi að þess eru afar fá dæmi — jafnvel þegar sambúð ríkjanna hefur verst verið — að valdsherrar í öðru landinu hafi beinlínis sent her sinn yfir fjöllin til að herja á nágrannann, þá snýst elsta bókmenntaverkið, sem vitað er til að hafi verið skrifað á miðöldum á frönsku (en ekki latínu) um eina af þeim fáu herferðum.

Söngur Rólands.

Karlamagnús fer halloka — eða hvað?

Árið 778 var Karlamagnús mættur til Spánar og herjaði þar á tiltekna stríðsherra Mára en var reyndar í bandalagi við aðra múslimska pótintáta, eins og gengur.

Roland fallinn, Karlamagnús kveður riddara sinn sem bjargaði her Frakka með vasklegri vörn sinni við Roncevaux-skarð. Þessi orrusta er fótboltaliðum beggja landa áreiðanlega mjög ofarlega í huga í dag þegar lið ríkjanna mætast í München.

Líkt og af rælni braut Frankakóngur niður borgarmúra höfuðborgar Baska (Pamplona) þótt hann ætti þá ekkert sérstakt sökótt við Baska. Baskar hefndu sín hins vegar með því að ráðast á her Karlamagnúsar er hann var á leið aftur heim um þrönga dali Pýreneafjalla.

Er þetta kallað orrustan í Roncevaux-skarði.

Hversu mikill bardaginn var í raun er alveg óvíst en í sögum og sögukvæðum varð atburðurinn afar dramatískur.

Kvæðið Rólandssöngur fjallar um hetjulega vörn foringja eins í liði Karlamagnúsar og þykir mikill dýrgripur.

Endar með því að Roland fellur fyrir grimmum féndum Frakka en vörn hans verður rómuð.

Sagan fölsuð

Athyglisvert er að í kvæðinu er sagan í raun fölsuð þannig að þar eru það Márar sem ráðast gegn hinum hjartahreina Roland og djörfum Frökkum en í rauninni voru það sem sé Baskar.

Athyglisvert er — er það ekki? — með tilliti til bardaga Frakka við Baska árið 778 að tveir helstu varnarmenn spænska fótboltaliðsins í Þýskalandi eru báðir Baskar, sem fæddust og ólust upp í Frakklandi, en kusu að spila fyrir Spán. Þetta eru Aymeric Laporte (t.v.) og Robin Le Normand (t.h.)

(Og má í því sambandi halda því til haga að bæði þjálfari og óvenjumargir liðsmenn spænska landsliðsins í fótbolta núna eru Baskar! Er einhver Roland í franska liðinu nógu hugdjarfur til að verjast Böskum?! )

Nema hvað, þegar Spánn var aftur sameinaður undir kristinni stjórn í lok 15. aldar komst landið fljótlega í hóp helstu stórvelda Evrópu, ekki síst eftir að siglingar hófust og Spánverjar rændu ókjörum af gulli, silfri og öðrum dýrmætum vestur í Ameríku.

Barist á Ítalíu og Niðurlöndum

Þá hófst fljótlega núningur við nágrannana í Frakklandi.

Með ýmsum aðferðum komust spænskir konungar af Habsborgar-ætt yfir miklar lendur á Ítalíu, sem hér má sjá með rauðum lit. Þessi svæði voru öldum saman bitbein Frakka og Spánverja, sem — nokkru seinna — lönd sem Spánverjar gerðu tilkall til í Niðurlöndum og hér birtast rauðgul.

Næstu tvær aldir kom oft til átaka milli spænskra hersveita og franskra en hins vegar snerust þau átök eiginlega aldrei um landamerkjadeilur við Pýreneafjöll og þar um slóðir var oftast kyrrt.

Átök ríkjanna stóðu umfram allt um landsvæði á Ítalíu, sem bæði vildu kasta á eign sinni og áhrifavaldi, og er tímar liðu einnig svæði í Niðurlöndum þar sem spænskir kóngar af Habsborgaraætt höfðu seilst til áhrifa.

Eru öll þau átök svo löng og flókin saga að hún verður að liggja milli hluta hér, en til allsherjarstríðs stórveldanna tveggja kom sem sé varla eða ekki.

Árið 1700 dró til hins vegar til tíðinda.

Bourbonar birtast

Þá andaðist Karl 2. Spánarkonungur aðeins 38 ára gamall, líkamlegt og andlegt flak eftir tveggja alda markvissa innræktun Habsborganna. Þá var svo komið að Spáni hafði mjög hnignað en Frakkland var með verulega hýrri há eftir að ný grein konungsættarinnar þar, hinir svonefndu Bourbonar, settust á valdastóla 1589.

Karl 2. var af ætt Habsborgara, Filippus 5. af ætt Bourbona. Í raun voru þeir þó náskyldir á ýmsa vegu.

Árið 1700 hafði Bourbona-kóngurinn Loðvík 14. verið við völd í Frakklandi í 57 ár.

Sólkonungurinn sjálfur.

Hann hafði beitt sínum miklu áhrifum til þess að vesalingurinn Karl Spánarkonungur (sem aldrei var við konu kenndur í raun og veru og átti því ekki börn svo vitað sé) féllst á að Filippus, sonursonur hins volduga Frakkakóngs, var útnefndur ríkisarfi á Spáni og tók nú við sem Spánarkóngur þegar Karl geispaði golunni.

Filippus 5. var vissulega kominn af spænsku konungsættinni, því amma hans (drottning Loðvíks 14.) var konungsdóttir frá Spáni.

Sameinað ríki Frakklands og Spánar?

En nú þegar Bourbona-kóngur var sestur á konungsstól Spánar, þá hætti keppinautum Frakka að lítast á blikuna.

Spánn var vissulega ekki sama veldið og verið hafði en réði þó enn miklum löndum í Ameríkum — og þar var enn kostur á að arðræna íbúa — og átti sömuleiðis ennþá lönd sín óskert í Niðurlöndum og á Ítalíu.

Spænski Bourbona-kóngurinn Filippus átti nú öflugt tilkall til konungstignar á Frakklandi líka, ef Loðvíki 14. þóknaðist að deyja einhvern tíma (sem ýmsir voru raunar farnir um að efast um að myndi gerast).

Bretum, Prússum og Austurríkismönnum fannst óskemmtileg sú tilhugsun að standa bráðum andspænis sameinuðu ríki Frakka og Spánverja.

Þeir héldu því í stríð til að reyna að hrekja Bourbona-kónginn frá völdum á Spáni.

Frakkar snerust hins vegar til varnar fyrir hönd Spánverja.

Spánarkóngur styður Frakka, ekki Spánverja

Spænska erfðastríðið stóð frá 1701 til 1714. Barist var af mikilli hörku og báru Frakkar hitann og þungan af stríðinu fyrir sína hönd og Spánverja, en þegar upp var staðið höfðu Frakkar tapað litlu landi en Spánverjar miklu.

Því Spánverjar misstu mörg helstu svæði sín á Niðurlöndum og á Ítalíu. Var nú enn ljósara en áður að Spánn var orðinn eftirbátur öflugustu stórvelda í álfunni.

Og Filippus 5. varð að skrifa undir að hann mundi aldrei gera tilkall til ríkis afa síns norðan Pýreneafjalla. Frakkland og Spánn yrðu ekki sameinuð þótt sama ættin réði báðum ríkjum.

Það sem eftir var af 18. öldinni var Spánn yfirleitt í bandalagi með Frakklandi og Filippus studdi venjulega Frakkland ef hagsmunir ríkjanna skörðust.

Engum duldist að Spáni fór enn hnignandi sem stórveldi, svo hin franska Bourbon-ætt megnaði bersýnilega ekki að snúa þeirri þróun við.

Þvert á móti, spænska ríkið varð gjaldþrota 1739 og var lengi að skríða saman eftir það.

Öllu hnignar

Frakkland færðist hins vegar um stund enn í aukana en tók svo að hnigna og staðna líka.

Efnahagslega. Á Frakklandi varð hins vegar mikil framþróun í hugsun allri, þar sem upplýsingin svokallaða kom fram á sjónarsviðið, en upplýsingar varð lítt vart á Spáni.

Eftir að bylting braust út í Frakklandi 1789 var Bourbon-ættinni hrundið frá völdum þar. Létu þá Spánverjar illúðlega við Frakka um skeið, og þóttust vera eitthvað, en reyndust ekki hafa styrk til neins.

Brátt neyddust þeir til að ganga í bandalag við Frakka að nýju, fyrst byltingarstjórnina og síðan Napóleon keisara, og það var sameiginlegur herfloti Frakka og Spánverja sem Nelson flotaforingi sigraði í frægri sjóorrustu við Trafalgar-höfða á Spáni árið 1804.

Spánarkóngur kjölturakki

Þá var svo komið að Napóleon stýrði nýjasta Bourbona-kóngi Spánverja, Karli 4., líkt og kjölturakka, enda var Karl áhugalaus með öllu um landstjórn en hafði virkilega gaman af veiðum. Bandalagið við Frakka varð á endanum giska óvinsælt með Spánverjum, háum sem lágum, og þar kom að Ferdínand 7. sonur Karls steypti honum af stóli og hugðist ybba sig eitthvað við Frakka.

Þá kom líka til uppreisnarinnar 2. maí sem varð tilefni málverks Goya, aðalmyndar þessa stutta pistils.

Napóleon Bonaparte gerði stóra bróður sinn, Jósef, fyrst að kóngi í Napólí en síðan á Spáni 1808. Spánverjar kunnu illa við sendinguna. En Jósef fékk að ganga um í fallegum fötum þau ár sem hann taldist kóngur á Spáni.

Þetta var árið 1808 og Napóleon þótti nú kominn tími til að tuska Spánverja almennilega til. Hann brunaði nú með her sinn yfir Pýreneafjöllin og braut allt undir sig á skömmum tíma. Endaði svo Napóleon með því að vísa kóngafeðgunum báðum úr hásætinu en setti þar bróður sinn Jósef.

Hafði þá Bonaparte-ættin frá Korsíku á einum áratug leyst Bourbon-ættina af hólmi í hásætum bæði Frakklands og Spánar. 

Napóleon niðurlægir Frakka

En þarna gekk Napóleon of langt. Spánverjum fannst þeir niðurlægðir og það létu þeir ekki bjóða sér alveg takmarkalaust.

Þeir hófu uppreisn og skærustríð gegn Frökkum og varð það langt, blóðugt og grimmilegt. Öflug ensk hersveit undir herstjórn Wellesley herforingja (síðan Wellingtons lávarðar) lenti á Spáni og lagði spænsku uppreisnarmönnunum lið og tókst herjum Napóleons ekki að sigrast á þessum féndum.

Hið langvinna stríð á Spáni var einn þáttur, og ekki sístur, í að Napóleon yfirkeyrði sig að lokum í valdabrölti sínu í Evrópu.

Þegar hann gerði innrás sína í Rússland 1812 varð hann að skilja eftir stóran her á Spáni, her sem ella hefði mögulega getað ráðið úrslitum í herferðinni til Rússlands eða altént í hinum erfiðu orrustum ársins 1813 þar sem örlög Napóleons réðust í raun og veru.

Svo fór að Jósef Bonaparte Spánarkóngur flúði Pýreneaskagann þegar allt var Frökkum gengið þar úr greipum og stuttu síðar hraktist Napóleon litli bróðir hans frá völdum í Frakklandi.

Bourbon-ættin tók við völdum í báðum löndum á ný, Loðvík 18. í Frakklandi en Ferdínand 7. varð aftur kóngur á Spáni.

Bourbonum steypt í Frakklandi, skrimtu á Spáni

Eftir þetta er ekki hægt að segja að Spánn og Frakkland hafi lent alvarlega upp á kant.

Spáni hnignaði enn á 19. öld og á fyrstu áratugum aldarinnar missti ríkið flestar nýlendur sínar í Ameríkum er tóku sér sjálfstæði. Þegar nýtt kapphlaup hófst milli evrópsku stórveldanna, einkum Bretlands og Frakklands, um nýlendur í Asíu og Afríku hafði Spánn ekkert þrek til að taka þátt í því, en nýlenduveldi Frakka varð það þriðja víðáttumesta í heimi, á eftir nýlenduveldum Breta og Rússa.

Þá var hins vegar svo komið að Bourbon-ættinni hafði verið steypt af stóli í byltingu í Frakklandi 1848.

En Bourbonarnir skrimtu á Spáni, við æ minni orðstír þó.

Frakkar heykjast á stuðningi við Spánverja

Er leið að 20. öld var var Spánn orðinn feyskinn og fúinn úr öllu hófi fram og skipti litlu í stórveldapólitíkinni. Árið 1931 var Alfonso 13. lítilsigldum konungi Bourbon-ættarinnar loks steypt af stóli og lýðveldi komið á.

Alfonso 13. fór frá völdum á Spáni í byrjun fjórða áratugarins. Hann var lítilfjörlegur maður en spænskir konungssinnar sáu þó eftir honum og studdu óspart fasista sem þeir hugðu að kæmu Borbónakóngum aftur til valda.

Þá voru 83 ár síðan síðasta Bourbona-kónginum ýtt frá völdum á Frakklandi.

Nú urðu miklar róstur á Spáni, lýðveldi var komið á en fasistar grófu markvisst undan því og borgarastyrjöld braust út 1936.

Vinstrimenn voru þá við völd í Frakklandi en þorðu ekki að koma lýðveldissinnum til hjálpar — frekar en önnur lýðræðisríki í Evrópu — og svo fór að fasistinn Franco varð alvaldur einræðisherra og stýrði með harðri hendi allt frá 1939.

Engin átök Frakka og Spánverja

Þrátt fyrir að Franco hefði fengið mikla aðstoð frá Adolf Hitler leiðtoga þýskra nasista meðan hann var að brjótast til valda léði Franco aldrei máls á því að ganga til liðs við Þjóðverja eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út.

Því kom aldrei til átaka milli Spánverja og Frakka í styrjöldinni.

„Frjálsum Frökkum“ sveið sárt að þeim fannst Spánverjar samt hallir undir Þjóðverja en það var þó hið eina viturlega sem Franco gerði á ævinni — að freistast ekki til þess að stinga Frakka í bakið þegar þeir voru undir þýskum járnhæl með því að hirða af þeim lönd norðan Pýreneafjalla eða nýlendur.

Hver á að taka við?

Franco átti aðeins eina dóttur svo ekki kom til þess að hann gæti útnefnt son sem ríkisarfa á Spáni.

Francisco Franco. Sambúð hans við Frakka var jafnan heldur stirð en aldrei sauð upp úr. Hann gifti einkadóttur sína spænskum aðalsmanni og sá síðan um að elsta dóttir hennar giftist sonarsyni Alfonso 13. Þannig hugðist einræðisherrann tengja sig Bourbon-ættinni sem ráðið hafði bæði Spáni og Frakklandi.

Til að tryggja sér stuðning spænskra konungssinna sem enn voru áhrifamiklir — þrátt fyrir alræmt dugleysi hinna spænsku Bourbona — þá bjó hann hins vegar svo um hnúta að eftir sinn dag yrði spænska konungsveldið endurreist og var Juan sonur Alfonsos 13. útnefndur ríkisarfi.

Þegar Franco heyrði haft eftir honum að Juan hygðist endurreisa þingræði í landinu þegar hann yrði kóngur að Franco byrjuðum að morkna, þá skipti einræðisherrann hins vegar um skoðun og útnefndi ungan son Juans ríkisarfa í staðinn.

Hann hét og heitir Juan Carlos og honum treysti Franco til að viðhalda hinni ströngu einræðisstjórn eftir sinn dag.

Borbón-ættin kemur aftur í hásætið

En þegar Bourbon-ættin komst aftur í hásætið 1975, þegar Franco fór loks að rotna, þá kom í ljós að Juan Carlos konungur vildi ekki reyna að verða einræðisherra.

Þvert á móti studdi hann viðleitni til að koma þegar á lýðræði og gerði enga tilraun til að halda í völd sín.

Filippus 6. og Juan Carlos faðir hans. Sá síðarnefndi var og er spilltur vandræðapési sem allir voru fegnir að losna við, þegar hann sagði af sér, en Spánverjar meta þó við hann að hann reyndi ekki að halda í fasisma Francos.

Væntanlega hafði hann ekki um neitt að velja, en þetta var nú samt óvenju snaggaralega gert af Bourbona-kóngi að vera.

(Eða Borbón, eins og Spánverjar rita nafn ættarinnar.)

Frægt varð svo árið 1881 þegar nokkrir spænskir herforingjar og fasistar hugðust ræna völdum og vildu gera Juan Carlos að einræðisherra (að nafninu til; þeir ætluðu sko að ráða), þá vildi kóngur engan þátt eiga í því flani og gaf það svo skýrt til kynna að herforingjarnir lyppuðust fljótt niður.

Þegar hann sagði svo af sér árið 2014 eftir allskonar bull og hneykslismál, þá tók sonur hans við: Felipe Juan Pablo Alfonso de Todos los Santos de Borbón y Grecia.

Filippus 6. sem þið sjáið í stúkunni í München.

Kjósa
20
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Christi Shoemaker skrifaði
    Byrjaðu núna að vinna þér inn laun á netinu meira en 15 þúsund evrur í hverjum mánuði. Ég hef fengið annan launaseðil minn í síðasta mánuði upp á 16.859 €. Þetta eru tekjur mínar upp á aðeins einn mánuð með því að vinna auðvelda vinnu á netinu. Ég er mjög ánægður með að hafa þetta starf núna og er fær um að búa til þúsundir í hverjum mánuði á netinu. Allir geta fengið þetta starf núna og aflað meiri tekjur á netinu með því að afrita og líma þessa vefsíðu í vafra og fylgja síðan upplýsingum til að byrja ...

    ...➥➥ 𝘄𝘄𝘄.𝘇𝗶𝗻𝘁𝗰𝗼𝗶𝗻.𝗰𝗼𝗺
    0
  • SIB
    Sigurður I Björnsson skrifaði
    Takk fyrir greinina, alltaf gaman að svona sögu pælingum.
    0
  • TM
    Tómas Maríuson skrifaði
    Einn liður í endurreisn lýðveldis á Spáni var óneitanlega ósk um aðild að EBE (fyrirrennara ESB) en fyrir einræðisríki var það ekki hægt. Eftir 5 ára aðlögunarferli varð Spánn aðildarríki 1986, sama ár og Pórtúgal sem steypti sinni herstjórn í Nellikubyltingu 1974.
    Svipað er að segja um Gríkkland sem fékk lýðræðislega stjórnarskrá 1975 og gekk í EBE 1981.
    Ekki að undra að helstum fasístum (þ.m.t. Putin í Rússlandi) er ESB þyrnir í augum.
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Lögð inn á spítala eftir bréf frá Fæðingarorlofssjóði
1
ÚttektKerfi sem bregst barnafjölskyldum

Lögð inn á spít­ala eft­ir bréf frá Fæð­ing­ar­or­lofs­sjóði

Ís­lensk­ir for­eldr­ar sem Heim­ild­in hef­ur rætt við segja frá harka­leg­um könt­um á kassa­laga kerfi sem fær þau til að hugsa sig tvisvar um frek­ari barneign­ir. Lækn­ir og bráða­tækn­ir sem eign­uð­ust ný­lega son voru bæði kom­in aft­ur út á vinnu­mark­að þrem­ur mán­uð­um eft­ir barns­burð. Um tíma leit út fyr­ir að móð­ir­in fengi ekki fæð­ing­ar­or­lof.
Skýrsla um stöðu drengja í menntakerfinu umdeild á meðal skólafólks
3
Fréttir

Skýrsla um stöðu drengja í mennta­kerf­inu um­deild á með­al skóla­fólks

Tryggvi Hjalta­son fékk 17 millj­ón­ir fyr­ir gerð skýrslu um stöðu drengja í skóla­kerf­inu. Skýrsl­an hef­ur ver­ið um­deild á með­al skóla­fólks, sem gagn­rýn­ir að­ferða­fræð­ina, val á við­mæl­end­um, sam­an­burð við önn­ur gögn og túlk­un á nið­ur­stöð­um. Sjálf­ur seg­ir höf­und­ur­inn að skýrsl­an sé hvorki upp­haf né end­ir á um­ræð­unni.
Virkjunin sem enginn vill á leið í nýtingarflokk
4
SkýringFriðlandið í Vatnsfirði

Virkj­un­in sem eng­inn vill á leið í nýt­ing­ar­flokk

Skógi­vax­inn dal­ur og ósnort­in víð­erni yrðu fyr­ir áhrif­um áform­aðr­ar Tröllár­virkj­un­ar á Vest­fjörð­um. Verk­efn­is­stjórn legg­ur til að kost­ur­inn fari í nýt­ing­ar­flokk ramm­a­áætl­un­ar en land­eig­end­ur segja nei takk. Virkj­un­ar­að­il­inn er ekk­ert sér­stak­lega spennt­ur held­ur og vill frek­ar horfa til ann­ars dals í ná­grenn­inu.
Klárar hvern einasta veikindadag í meðgönguveikindi
6
ÚttektKerfi sem bregst barnafjölskyldum

Klár­ar hvern ein­asta veik­inda­dag í með­göngu­veik­indi

Fyr­ir tæp­um 34 ár­um stóð Sigrún Jóns­dótt­ir í pontu á Al­þingi og krafð­ist þess að ófrísk­ar kon­ur fengju svo­kall­að með­göngu­or­lof við 36. viku með­göngu svo þær þyrftu ekki að ganga á veik­inda­rétt­inn sinn. Nú, 34 ár­um síð­ar, er dótt­ir Sigrún­ar, Jóna Þórey Pét­urs­dótt­ir, ein­mitt í þeim spor­um að klára veik­inda­rétt­inn sinn vegna veik­inda á með­göngu. Þeg­ar hún kem­ur aft­ur á vinnu­mark­að eft­ir or­lof mun hún ekki eiga neinn veik­inda­rétt inni.
Sér ekki fyrir sér að snúa aftur: „Ég sé enga von í landinu mínu“
9
FréttirFlóttafólk frá Venesúela

Sér ekki fyr­ir sér að snúa aft­ur: „Ég sé enga von í land­inu mínu“

Manu­el Al­ej­andro Palencia er einn af þeim 800 venesú­elsku hæl­is­leit­end­um sem bíð­ur nið­ur­stöðu kær­u­nefnd­ar út­lend­inga­mála um hæl­is­um­sókn sína. Manu­el kveið nið­ur­stöð­um sögu­legra for­seta­kosn­inga í Venesúela sem voru kunn­gjörð­ar á mánu­dag: Nicolas Maduro, sem gjarn­an hef­ur ver­ið kall­að­ur ein­ræð­is­herra, hélt völd­um.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Lögð inn á spítala eftir bréf frá Fæðingarorlofssjóði
3
ÚttektKerfi sem bregst barnafjölskyldum

Lögð inn á spít­ala eft­ir bréf frá Fæð­ing­ar­or­lofs­sjóði

Ís­lensk­ir for­eldr­ar sem Heim­ild­in hef­ur rætt við segja frá harka­leg­um könt­um á kassa­laga kerfi sem fær þau til að hugsa sig tvisvar um frek­ari barneign­ir. Lækn­ir og bráða­tækn­ir sem eign­uð­ust ný­lega son voru bæði kom­in aft­ur út á vinnu­mark­að þrem­ur mán­uð­um eft­ir barns­burð. Um tíma leit út fyr­ir að móð­ir­in fengi ekki fæð­ing­ar­or­lof.
Sér erfiðleika foreldra og hugsar: „Þetta vil ég ekki“
7
ÚttektKerfi sem bregst barnafjölskyldum

Sér erf­ið­leika for­eldra og hugs­ar: „Þetta vil ég ekki“

Ing­unn Lára Kristjáns­dótt­ir er rúm­lega þrí­tug og hef­ur aldrei fund­ið löng­un til barneigna. Hún tel­ur að inn í það spili ónóg­ur stuðn­ing­ur við barna­fjöl­skyld­ur í ís­lensku sam­fé­lagi. Aðjunkt í fé­lags­fræði seg­ir ástæð­urn­ar fyr­ir fallandi fæð­ing­ar­tíðni gríð­ar­lega flókn­ar en að kerf­ið hafi að hluta brugð­ist fjöl­skyld­um, ekki síst mæðr­um.

Mest lesið í mánuðinum

Uppskera íslenskra kartaflna skemmdist á 48 tímum: „Aldrei séð annað eins“
2
FréttirNeytendamál

Upp­skera ís­lenskra kart­aflna skemmd­ist á 48 tím­um: „Aldrei séð ann­að eins“

Heit­ar um­ræð­ur sköp­uð­ust á Face­book í gær eft­ir að Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir greindi frá því að heill poki af nýj­um kart­öfl­um hefði reynst skemmd­ur. Gunn­laug­ur Karls­son, for­stjóri Sölu­fé­lags garð­yrkju­manna, seg­ist aldrei hafa séð ann­að eins. Upp­sker­an hafi skemmst á tveim­ur sól­ar­hring­um.
Þau sem hafa hagnast ævintýralega á Þorpinu
3
FréttirHúsnæðismál

Þau sem hafa hagn­ast æv­in­týra­lega á Þorp­inu

Ár­ið 2021 keypti hóp­ur fjár­festa í gegn­um eign­ar­halds­fé­lag­ið Þorp­ið 6 ehf. lóð­ir og bygg­ing­ar­rétt­indi á Ár­túns­höfða í Reykja­vík fyr­ir 7,4 millj­arða króna. Fyrr á þessu ári voru lóða­rétt­ind­in seld fyr­ir ell­efu millj­arða króna án þess að nokk­uð hafi ver­ið byggt á svæð­inu. Við­skipt­in sýna vel hvernig fjár­fest­ar geta hagn­ast æv­in­týra­lega með því að kaupa og selja lóð­ir og bygg­ing­ar­rétt­indi á til­tölu­lega skömm­um tíma.
Öskraði í sturtu því hún mátti ekki hitta dóttur sína
4
Viðtal

Öskr­aði í sturtu því hún mátti ekki hitta dótt­ur sína

Guð­laug Elísa­bet Ólafs­dótt­ir, kúa­bóndi og leik­kona, er orð­in goði. Nýi goð­inn hef­ur upp­lif­að gleði og sorg­ir og varð líf­ið hel­víti lík­ast þeg­ar hún fékk ekki að um­gang­ast barn­unga dótt­ur sína, sem frændi henn­ar og mað­ur hans höfðu ætt­leitt. Stúlk­an vildi fyr­ir nokkr­um ár­um hitta móð­ur sína og eru sam­skipt­in við feð­urna góð í dag en lær­dóm­ur­inn var mik­ill: „Ég hef trú á að það hjálpi mér við að um­gang­ast fólk í djúpu og miklu sorg­ar­ferli.“
Greiddu 17 milljónir fyrir skýrslu um stöðu drengja
5
Fréttir

Greiddu 17 millj­ón­ir fyr­ir skýrslu um stöðu drengja

Skýrsla um stöðu drengja í skóla­kerf­inu sem unn­in var að beiðni mennta- og barna­mála­ráð­herra og há­skóla-, iðn­að­ar- og ný­sköp­un­ar­ráð­herra kostaði sam­an­lagt um 13,7 millj­ón­ir króna auk virð­is­auka­skatts og hljóð­ar heild­ar­upp­hæð­in því upp á rúm­ar 17 millj­ón­ir. Tryggvi Hjalta­son, grein­andi hjá CCP, er eini höf­und­ur skýrsl­unn­ar. Í sam­tali við Heim­ild­ina seg­ist hann hafa unn­ið að skýrsl­unni sam­hliða öðr­um störf­um en vinn­an tók um eitt og hálft ár.
Þurftu að kalla fólk niður af fjalli til að færa bílana
9
Fréttir

Þurftu að kalla fólk nið­ur af fjalli til að færa bíl­ana

Daní­el Freyr Jóns­son, svæð­is­sér­fræð­ing­ur í nátt­úru­vernd­art­eymi, seg­ir stans­laus­ar tepp­ur hafa ver­ið á bíla­stæð­um við Land­manna­laug­ar áð­ur en far­ið var að inn­heimta bíla­stæða­gjöld á álags­tím­um í sum­ar. Kalla hafi þurft bíl­stjóra nið­ur af fjöll­um til að færa bíl­ana til að greiða leið fyr­ir rút­um. Nýja fyr­ir­komu­lag­ið hafi hlot­ið góð við­brögð hjá gest­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár